Zuckerberg ræðir Facebook-morðið

Mark Zuckerberg sagði starfsfólk Facebook halda áfram að reyna að …
Mark Zuckerberg sagði starfsfólk Facebook halda áfram að reyna að koma í veg fyrir harmleiki eins og birtingu á morðinu á Goodwin. AFP

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, vottaði í gær samúð sína fjölskyldu manns sem myrtur var og morð hans síðan birt á samfélagsmiðlinum.

„Hugur okkar er með fjölskyldu og vinum Robert Godwins,“ sagði Zuckerberg við upphaf F8 ráðstefnu Facebook, en Facebook hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir hversu langan tíma tók að fjarlægja upptökuna af vefnum.

Skömmu áður en ráðstefnan hófst tilkynnti lögregla að morðinginn, Steve Stephens, hefði tekið eigið líf.

Talið er að Stephens, sem víðtæk leit stóð yfir að, hafi birt upptöku af morðinu á Goodwin á Facebook og að hann hafi í kjölfarið stært sig í gegnum streymisveituna Facebook Live af því að hafa myrt fleiri.

Tók rúma tvo tíma að fjarlægja upptökuna

Forsvarsmenn Facebook viðurkenndu í kjölfarið að það hefði tekið rúmlega tvo klukkutíma að fjarlægja myndbandsupptökurnar eftir að sú fyrsta var birt, þrátt fyrir að hafa fengið kvartanir í millitíðinni.

Zuckerberg sagði starfsfólk Facebook halda áfram að reyna að koma í veg fyrir harmleiki eins og þennan.

Calvin Williams, lögreglustjóri Cleveland, hafði áður tjáð sig um hlutverk Facebook í málinu á fundi með fréttamönnum. „Ég held að fólk á samfélagsmiðlum viti hvaða vald það hefur og skaðann sem það getur valdið. Við höfum áður rætt um að fólk eigi ekki að lifa lífi sínu á samfélagsmiðlum, sannleiksgildi samfélagsmiðla og að nota þá ekki til að skaða aðra,“ sagði Williams.

„Þetta er fullkomið dæmi um eitthvað sem aldrei hefði átt að deila. Punktur.“

Vandi sem Facebook verður að ná stjórn á

Einn sérfræðinganna á F8 ráðstefnunni sagði BBC að hann væri ekki hissa á að Zuckerberg hefði viljað ræða málið. „Augljóslega er þetta eitthvað sem þeir verða að ná stjórn á hið fyrsta, en þetta er verulega vandasamt,“ sagði Geoff Blaber hjá ráðgjafafyrirtækinu CCS Insight.

„Facebook hefur verulega margt hæfileikafólk innan sinna raða og leggur mikla áherslu á gervigreind og ég tel að þannig muni fyrirtækið taka á málinu til langframa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert