Afþakkar tálsýnir Breta

Kanslari Þýskalands, Angela Merkel, biður Breta um að vera ekki með neinar tálsýnir um að þeir muni njóta sömu réttinda og íbúar Evrópusambandsríkjanna eftir að þeir yfirgefa sambandið.

Merkel segir að ríki utan ESB muni aldrei njóta sömu réttinda né heldur meiri réttinda en aðildarríki. Á laugardag verður haldin ráðstefna um Brexit í Brussel. 

„Þetta kann að hljóma sjálfsagt en ég verð að segja þetta með skýrum hætti því sumir Bretar virðast haldnir tálsýnum um þetta,“ segir Merkel en hún ávarpaði þýska þingið í morgun. 

Merkel segir að viðræðurnar verði allt frá upphafi að taka mið af fjárhagslegum skuldbindingum Bretlands, þar á meðal eftir Brexit. Skilyrðin fyrir útgöngu Breta verði að liggja fyrir sem fyrst áður en samningaviðræður um framtíðarsamband ESB og Bretlands hefjast. 

Leiðtogar 27 ríkja ESB munu hittast á fundi 29. apríl til að ræða helstu útlínur viðræðnanna við Breta sem hefjast í júní.

Angela Merkel.
Angela Merkel. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert