Fölsuð skjöl í bland við stolin

Emmanuel Macron má ekki tjá sig um gagnalekann. Lög í …
Emmanuel Macron má ekki tjá sig um gagnalekann. Lög í Frakklandi segja að frambjóðendur megi ekki tjá sig um neitt svona skömmu fyrir kosningar. AFP

Starfsmenn kosningabaráttu Emmanuel Macron segja að birt hafi verið á netinu sambland af stolnum tölvupóstum forsetaframbjóðandans og fölsuðum skjölum til að rugla fólk í ríminu. Þeir segja að Macron sé fórnarlamb „gríðarlegrar tölvuárásar“.

Síðari umferð frönsku forsetakosninganna fer fram á morgun. Strax í kjölfar kappræðna Macrons og mótframbjóðanda hans, Marine Le Pen, fréttist að hin stolnu gögn hefðu verið birt á netinu. Meðal annars er um að ræða fjölda tölvupósta.

Talsmenn framboðs Macrons segja ljóst að tilgangurinn sé að grafa undan honum, rétt fyrir kosningadaginn í Frakklandi.

Gögnin voru birt á deilisíðu í gærkvöldi. Þar sem lög banna frambjóðandanum sjálfum að tjá sig svo skömmu fyrir kosningar getur hann ekki sjálfur svarað fyrir málið. Þá mega fjölmiðlar heldur ekki fjalla um kosningabaráttuna svo skömmu fyrir stóra daginn.

Síðustu kannanir hafa sýnt að Macron er með um 20% forskot á Le Pen í kosningunum.

Hver stal og hver birti?

Í frétt BBC um málið segir að um 9 gígabætum af skjölum hafi verið lekið á netið. Ekki er vitað hver deilir upplýsingunum. 

Talsmenn framboðsins segja í tilkynningu að gögnunum hafi verið stolið fyrir nokkrum vikum. Fleiri stjórnmálamenn hafi orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótunum.

Miklar vangaveltur eru nú um það hver gæti hafa brotist inn í tölvukerfin og hver hafi fyrirskipað slíkt. Margir sjá líkindi með innbrotinu og því sem kosningateymi Hillary Clinton varð fyrir í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum í fyrra.

Wikileaks, sem birti tölvupósta Clinton, hefur birt tengil á gagnalekann í Frakklandi á Twitter-síðu sinni en neitar að bera ábyrgð á innbrotinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert