Pútín grínast með að veita Comey hæli

Vladimír Pútín, forseti Rússlands og, í þessu tilfelli, brandarakall.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands og, í þessu tilfelli, brandarakall. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti grínaðist með það að bjóða James Comey, fyrrverandi forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, hæli í Rússlandi. Grínið lét forsetinn flakka á árlegum viðburði í Rússlandi þar sem almenningur getur hringt og forsetinn svarar símtölum áhorfenda.

„Það hljómar undarlega þegar yfirmaður öryggisþjónustunnar skrifar niður samtal sitt við þjóðarleiðtogann og lekur því síðan til fjölmiðla í gegnum vini sína,“ sagði Pútín meðal annars. Kvaðst hann ekki hafa fylgst með því þegar Comey mætti fyrir rannsóknarnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og flutti vitnisburð sinn vegna meintra afskipta Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Þóttist Pútín þó vita sitt hvað um málið.

„Að því sögðu, hvernig er hann þá öðruvísi en Snowden?“ spurði forsetinn og vísaði þar til uppljóstrarans Edwards Snowdens sem áður starfaði hjá þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, og nýtur nú pólitísks hælis rússneskra yfirvalda. „Það þýðir að hann er ekki yfirmaður öryggisþjónustunnar heldur verndari mannréttinda. Og ef hann verður beittur þrýstingi, þá getum við með glöðu geði boðið honum pólitískt hæli líka,“ sagði Pútín um Comey.

„Fyrrverandi forstjóri FBI segir Rússa hafa haft afskipti af kosningabaráttunni í Bandaríkjunum en hafði engin sönnunargögn fyrir því,“ sagði Pútín svo í framhaldinu. Leyniþjónustuaðilar í Bandaríkjum telja Rússneska tölvuþrjóta hafa brotist inn í tölvukerfi Demókrataflokksins með það að markmiði að Donald Trump yrði kjörinn forseti og stendur rannsókn vegna þessa nú yfir.

Vildi ráð við „fordómafullri Rússlandsfóbíu“

Pútín hefur sakað Bandaríkin um að sjálf hafa þau afskipti í mörgum öðrum löndum um heiminn, t.d. með því að fjármagna alþjóðlegar stofnanir. Sagði Pútín þó mikilvægt að Rússland og Bandaríkin gætu átt uppbyggileg samskipti en til stendur að Trump og Pútín hittist í fyrsta sinn á fundi G20-ríkjanna í júlí.

Þættinum barst annað símtal sem vakti athygli en þar var á línunni Bandaríkjamaður frá Arizona. Kvaðst hann vera Rússlandsvinur og bað Pútín um ráð við því hvernig hann gæti barist gegn „fordómafullri Rússlandsfóbíu“ sem náð hefði fótfestu í Bandaríkjunum.

„Ég efast um að ég hafi rétt til þess að gefa þér ráð, en ég vil þakka þér fyrir afstöðu þína og við vitum að við eigum marga vini í Bandaríkjunum,“ svaraði Pútín.

Frétt Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert