Bretar taka aftur stjórnina á miðunum

Michael Gove greindi frá ákvörðun stjórnvalda í þætti Andrew Marr.
Michael Gove greindi frá ákvörðun stjórnvalda í þætti Andrew Marr. AFP

Bresk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau hyggist segja sig frá fiskveiðisáttmála frá 1964 í þeim tilgangi að ná aftur stjórn á fiskimiðum sínum.

Sáttmálinn var undirritaður áður en Bretar gengu í Evrópusambandið en samkvæmt honum er skipum frá Bretlandi, Frakklandi, Belgíu, Þýskalandi, Írlandi og Hollandi heimilt að veiða innan sex og tólf sjómílna frá strandlengju ríkjanna.

Umhverfismálaráðherrann Michael Gove sagði í samtali við sjónvarpsmanninn Andrew Marr í dag að Bretar hygðust taka aftur stjórn á miðum sínum og öðlast aftur valdið til að ákveða hverjir hefðu aðgang að þeim.

Þá sagði ráðherrann að úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu myndi hafa í för með sér fráhvarf frá sameiginlegum sáttmála í fiskveiðimálum, sem heimilar öllum aðildarríkjum sambandsins að veiða innan 200 sjómílna lögsögu hvert annars og kveður á um kvóta hvers ríkis.

Gove sagði hina sameiginlegu stefnu ESB í fiskveiðimálum hafa haft í för með sér umhverfislegan harmleik og að úrsögn Breta úr Evrópusambandinu myndi hjálpa umhverfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert