„Langt frá því sem borgarar eiga rétt á“

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Ákvörðun Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, um að gefa evrópskum ríkisborgurum í Bretlandi „fast aðset­ur“ (e. sett­led status) eftir Brexit, er langt frá því sem borgarar eiga rétt á.

Þetta segja leiðtogar fjögurra helstu flokka á Evrópuþinginu í yfirlýsingu. Guy Ver­hofsta­dt, sem fer fyr­ir frjáls­lynd­isflokknum á Evr­ópuþing­inu og er aðalsamningamaður þingsins um Brexit, var meðal þeirra sem skrifuðu undir yfirlýsinguna. Var hún send fyrir hönd meirihluta þingmanna þingsins.

Í yfirlýsingunni kemur fram að ákvörðunin sé mun áhrifaminni en búist hafði verið við. Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu.

Ríkisstjórn Bretlands tilkynnti í seinasta mánuði að inn­flytj­end­ur sem koma frá lönd­um inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins og hafa búið í Bretlandi í meira en fimm ár geti sótt um að fá fast aðset­ur sem trygg­ir þeim sömu rétt­indi og bresk­ir rík­is­borg­ar­ar njóta. Eru þeim gef­in tvö ár frá því að Brex­it tek­ur gildi til þess að senda inn um­sókn. Þeir sem flytja til lands­ins eft­ir þann tím­aramma geta ekki bú­ist við því að fá fast aðset­ur í land­inu.

Leiðtogarnir segja hins vegar í yfirlýsingunni að ákvörðunin veiti evrópskum ríkisborgurum minni réttindi en Bretar fái annars staðar í Evrópu.

Tilboð Evrópusambandsins standi

Í yfirlýsingunni kemur fram að Evrópuþingið hafi völd til að neita því að samþykkja ákvörðunina. Þar segir að þingið myndi ekki samþykkja neitt sem skerði réttindi borgara sem þeir hafa þegar öðlast.

Þar segir jafnframt að tilboð Evrópusambandsins standi, en sambandið lagði fram fjög­urra blaðsína til­lögu um að öll nú­gild­andi rétt­indi allra rík­is­borg­ara Evr­ópu­sam­bands­ins sem verða fyr­ir áhrif­um Brex­it verði tryggð fyr­ir lífstíð. 

Sam­tök Breta sem bú­sett­ir eru í Evr­ópu hafa kallað eft­ir því að bresk stjórn­völd komi til móts við til­lög­ur Evr­ópu­sam­bands­ins frek­ar en að fylgja eft­ir þeirri aðgerðaáætl­un sem May kynnti.

May hefur sagt að um þrjár milljónir evrópskra ríkisborgara sem búsettir eru í Bretlandi muni fá að vera áfram í landinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert