Ruku út úr dómsalnum

Connie Yates og Chris Gard, foreldrar hins 11 mánaða gamla …
Connie Yates og Chris Gard, foreldrar hins 11 mánaða gamla Charlie Gard. AFP

Foreldrar hins ellefu mánaða gamla Charlie Gard, sem tekinn verður úr öndunarvél að óbreyttu, ruku rétt í þessu reiðir út úr dómsal í London þar sem ný gögn í máli sonar þeirra eru nú tekin fyrir. Voru þau ósammála dómara og gengu út í miðjum réttarhöldum.

Sky News greinir ítarlega frá málinu í dag.

Í dag leggja Connie Yates og Chris Gard fram ný sönn­un­ar­gögn til stuðnings kröfu sinni um að fá að ferðast til Banda­ríkj­anna með dreng­inn og láta hann gang­ast und­ir til­raunameðferð.

Þegar dómarinn í málinu vísaði í orð föður Charlies um að hann vildi ekki að sonur sinn myndi halda áfram að lifa í núverandi ástandi þar sem engin von væri á framförum gáfu foreldrarnir í skyn að dómari væri að leggja honum orð í munn.

Yates sagði þau ekki trúa að Charlie þjáðist. Gard rauk þá út úr dómsalnum og Yates fylgdi honum fast á eftir. Ekki er ljóst hvort þau mæti aftur fyrir dómarann síðdegis þar sem gert er ráð fyrir að dómur verði kveðinn upp.

Samkvæmt gögnunum sem lögð hafa verið fyrir dóminn í dag eru líkurnar á því að Charlie fari fram eftir tilraunameðferðina ekki traustar. Lögmaður foreldranna sagði fyrir dómara í dag að 10% líkur væru á því að meðferðin myndi skila árangri.

Charlie Gard.
Charlie Gard.

Hafa fengið neitun á öllum dómstigum

Lækn­ar á Great Ormond Street-spít­al­an­um þar sem Charlie dvelur vilja taka önd­un­ar­vél­ina úr sam­bandi þar sem þeir segja ekk­ert líf bíða drengs­ins. For­eldr­arn­ir hafa bar­ist fyr­ir því að dreng­ur­inn fái að lifa, en vegna sjúk­dóms hans get­ur hann ekki opnað aug­un, borðað eða hreyft sig að nokkru viti sjálf­ur.

Hafa foreldrarnir krafist þess að fá að ferðast með son sinn til Bandaríkjanna og láta hann gangast undir tilraunameðferð. Söfnuðu þau 1,3 milljónum punda til ferðarinnar, en hafa fengið neitun á öllum dómstigum.

Yf­ir­rétt­ur í Bretlandi tekur málið nú fyrir á ný eft­ir að for­eldr­arn­ir fóru fram á að gögn frá sjö lækn­um um að til­raunameðferðin gæti skilað ár­angri yrðu tek­in fyr­ir. Í apríl komst sami rétt­ur að því að for­eldr­arn­ir fengju ekki að fara með barnið úr landi og til meðferðar í Banda­ríkj­un­um.

Dóm­ar­inn sagði við fyr­ir­töku máls­ins á þriðjudag að hann myndi glaður breyta um skoðun frá því í apríl, en það þyrfti mjög sterk­ar sann­an­ir fyr­ir ár­angri meðferðar­inn­ar svo hann myndi gera það. For­eldr­arn­ir munu leggja fram gögn­in á fimmtu­dag og mun dóm­ar­inn þá taka ákvörðun.

Fjallað hef­ur verið um mál Charlie Gard á öll­um dóm­stig­um í Bretlandi en í síðustu viku komst Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu að þeirri niður­stöðu að lækn­um væri heim­ilt að taka hann úr önd­un­ar­vél. Drengs­ins biði ekk­ert nema þján­ing og bata­horf­urn­ar væru eng­ar. 

Málið vakti heims­at­hygli í síðustu viku þegar Frans páfi lýsti yfir stuðningi við for­eldra Charlie og þá hef­ur Bamb­ino Gesu, sjúkra­hús á veg­um Vatík­ans­ins, boðist til að taka dreng­inn til meðferðar. Trump Banda­ríkja­for­seti tjáði sig einnig um málið í síðustu viku og sagði þarlend yf­ir­völd reiðubú­in til að aðstoða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert