Konur gerðar að skiptimynt

Nauðgun á unglingsstúlku sem hefnd við glæp sem bróðir hennar framdi hefur slegið marga óhug ekki síst íbúa í bænum Raja Ram í Pakistan. Þar efast margir um réttarkerfið sem ríkir í landinu og rétt þorpsráða til þess að taka lögin í sínar hendur.

Í síðasta mánuði fyrirskipaði þorpsráðið að stúlkunni, sem er sextán ára gömul, yrði nauðgað eftir að bróðir hennar var sakaður um að hafa nauðgað tólf ára gömlu stúlkubarni.

Ákvörðun þorpsráðsins lýsir vel hlutverki slíkra þorpsráða sem eru þekkt sem panchayats eða jirgas og áhrifa þeirra á líf margra íbúa á strálbýlum stöðum í landinu. Í huga margra þeirra eru dómstólar landsins eitthvað fjarlægt fyrirbæri.

Mukhtar Mai.
Mukhtar Mai. AFP

Venjulega er niðurstöðum slíkra þorpsráða - sem yfirleitt eru skipuð eldri körlum - vel tekið enda bjóða þau upp á hraðari málsmeðgerð en opinberir dómstólar landsins en þau mál sem þangað rata geta velkst um í kerfinu árum saman. Þar er átt við sakamál því einkamál geta setið föst í dómskerfinu áratugum saman.

En niðurstaða öldungaráðsins í bænum Raja Ram, þar sem um þrjú þúsund búa, hefur snúið bæjarlífinu á hvolf í þetta skiptið. Að heimila og í raun fyrirskipa bróður fórnarlambs nauðgunar að nauðga annarri saklausri stúlku.

Mukhtar Mai.
Mukhtar Mai. AFP

„Guð sé oss náðugur en þetta var skrýtinn dagur og þetta er svo mikið óréttlæti,“ segir Amina Bibi íbúi í Raja Ram í samtali við AFP fréttastofuna.

Fátækt og fáfræði ráða ríkjum

Imtiaz Matila sem einnig býr í bænum segir þetta enn eitt dæmið um fáfræðina sem þarna ríki. „Hér er hvorki skóli né sjúkrahús. Hér ráða fátækt og fáfræði ríkjum.“

Manzoor Hussain, sem er 65 ára gamall íbúi í Raja Ram, segir í samtali við AFP fréttastofuna að niðurstaðan sé blettur á nafni öldungaráðsins en báðar stúlkurnar hafa verið fluttar í skjól í kvennaathvarfi í borginni Multan, sem er fimmta stærsta borg Pakistan. 

Þorpsráðið í Raja Ram sem fyrirskipaði að stúlkunni skyldi nauðgað
Þorpsráðið í Raja Ram sem fyrirskipaði að stúlkunni skyldi nauðgað AFP

Raja Ram er aðeins í nokkurra kílómetra fjarlægð frá þjóðveginum en er samt sem áður svo langt frá lífi þéttbýlisins. Bærinn er í sama héraði og ein helsta baráttukona fyrir réttindum kvenna í Pakistan og þótt víðar væri leitað, Mukhtar Mai, býr. 

Dæmd til hópnauðgunar

Árið 2002 bauð Mai samfélagi sínu birginn eftir að þorpsdómstóll, jirga, hafði dæmt hana til hópnauðgunar vegna framferðis bróður hennar. Hún kærði nauðgara sína og notaði skaðabæturnar, sem henni voru dæmdar, til að reisa skóla. Málið vakti heimsathygli og var hún jafnvel boðuð á fund Sameinuðu þjóðanna. Fundurinn hjá SÞ hét „Samtal við Mukhtar Mai: Hugrökkustu konu í heimi“. Það varð þó aldrei af því að hugrakkasta kona í heimi kæmi fram.

Sama dag og Mai átti að koma fram var forsætisráðherra Pakistans í heimsókn. Samkvæmt fréttum frá þeim tíma mótmæltu pakistönsk stjórnvöld því að þessa atburði bæri upp á sama dag. Sameinuðu þjóðirnar brugðust við og frestuðu því að Mai kæmi fram. Þar með var uppákomunni í raun aflýst því að Mai hélt frá New York daginn eftir.

Stúlkunni var nauðgað í þessu húsi.
Stúlkunni var nauðgað í þessu húsi. AFP

Þrátt fyrir niðurstöðu dómstóla sluppu allir ákærðu fyrir utan einn við refsingu og fólk hélt áfram að treysta á niðurstöður þorpsráða sinna.  

Aisha Sarwari, baráttukona fyrir réttindum kvenna, segir að þetta sé afleiðing af því hvað teljist heiður. Enda sé ekkert meira niðrandi en nauðgun á konu í fjölskyldu þinni. 

Sarwari segir að karlar í fjölskyldu séu smánaðir með því að konur í fjölskyldunni eru vanvirtar.

AFP

Hún segir þetta lýsandi fyrir valdajafnvægi samfélögum sem þessum sem gerir konur að einskonar skiptimynt. 

Hæstiréttur Pakistan er að reyna að uppræta slík þorpsráð (jirgas) og voru þau lýst ólögleg árið 2006. En þrátt fyrir það eru þau starfandi víða á landsbyggðinni þar sem vegir réttvísinnar eru þyrnum stráðir. Baráttufólk fyrir réttindum kynjanna í Pakistan hefur hins vegar ekki gefist og segja að á hverju ári þokist landið nær réttlætinu.

Saga Mukhtar Mai

Tólf ára gömlum bróður Mai, Abdul Shakoor, var rænt af þremur mönnum af Mastoi ættbálkinum en á svæðinu sem Mai bjó ásamt fjölskyldu sinni voru áhrif Mastoi meiri en Tatla ættbálksins sem Mai tilheyrði. 

Fóru mennirnir með Abdul Shakoor á sykurrakur þar sem mennirnir nauðguðu honum og beittu hann ítrekaðu kynferðislegu ofbeldi. 

Þegar drengurinn neitaði að þegja um ofbeldið var hann tekinn höndum og haldið föngnum á heimili Abdul Khaliq, sem var í hópi Mastoi.

Þegar lögregla kom á vettvang til að rannsaka málið var Shakoor sakaður um að eiga í ástarsambandi með systur Khaliqs, Salma Naseen, sem var  að nálgast þrítugt á þessum tíma.

Shakoor var handtekinn og kærður fyrir hórdóm en látinn laus síðar. Seinna meir voru mennirnir sem nauðguðu Shakoor dæmdir fyrir samkynhneigð og fengu þeir allir fimm ára dóm.

Þorpsráðið í Raja Ram.
Þorpsráðið í Raja Ram. AFP

Þorpsdómstóll (jirga) Mastoi dæmdi hins vegar líka í málinu og var það niðurstaða hans að Shakoor ætti að kvænast Naseen og Mai ætti að giftast manni af Mastoi-ættbálkinum. 

En þorpsbúarnir voru ekki sáttir við þessa niðurstöðu og töldu að hið forkveðna auga fyrir auga og tönn fyrir tönn ætti hér við. Mai var gert að mæta fyrir ráðið og biðja Mastoi ættbálkinn afsökunar á gjörðum bróður hennar. Þegar hún kom á staðinn var hún dregin inn í kofa þar hjá þar sem henni var nauðgað af fjórum Matoi-mönnum og tíu stóðu hjá og fylgdust með ofbeldinu án þess að veita henni nokkra aðstoð. 

Eftir hópnauðgunina var hún dregin nakin í gegnum þorpið henni til háðungar. Flestir töldu að hún myndi fremja sjálfsvíg eftir þetta en Mai lét ekki ofbeldið brjóta sig niður heldur kærði hópnauðgunina og voru allir 14 ákærðir í málinu. 

Mennirnir sem voru ákærðir fyrir að nauðga Mai.
Mennirnir sem voru ákærðir fyrir að nauðga Mai. Wikipedia

1. september 2002 voru sex mannanna (þar á meðal fjórmenningarnir sem nauðguðu henni) dæmdir til dauða fyrir nauðgun. Hinir átta voru sýknaðir. 

Árið 2005 sýknaði áfrýjunardómstóll fimm mannanna, sem undirréttur hafði dæmt seka, vegna skorts á sönnunargögnum. Auk þess var dauðadómnum yfir þeim sjötta breytt í lífstíðarfangelsi. 

Mai fór með málið fyrir hæstarétt sem vísaði niðurstöðu áfrýjunardómstólsins frá og fyrirskipaði endurupptöku. Árið 2011 sýknaði hæstiréttur síðan fimm þeirra ákærðu og ganga þeir allir lausir í dag. Sá sjötti var dæmdur í lífstíðarfangelsi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert