Lífs eða liðnir?

AFP

Ekkert er vitað hversu margra er saknað í Sýrlandi né heldur hversu margir þeirra hafa horfið frá því stríðið braust út í kjölfar friðsamlegra mótmæla í mars 2011. Mannréttindavaktin hvetur til þess að fram fari sjálfstæð rannsókn á örlögum þeirra þúsunda sem hafa horfið sporlaust og að rannsakaðar verði líkamsleifar þeirra sem hvíla nafnlausir í fjöldagröfum víða um landið.

Vitað er með vissu að yfir 330 þúsund hafa látist og milljónir hrakist á flótta, bæði innanlands sem utan. Mannréttindavaktin (Human Rights Watch) segir vonlaust verk að áætla hversu margra er saknað þar sem utanaðkomandi fái ekki aðgang að fangabúðum og fangelsum í Sýrlandi. 

Setja verði á laggirnar sjálfstæða stofnun sem hafi umsjón með rannsókn á örlögum og hvar þá er að finna sem hafa horfið. Eins að rannsaka líkamsleifar þeirra sem hvíla í fjöldagröfum í Sýrlandi, segir í yfirlýsingu frá HRW.

Á síðasta ári gaf teymi sérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna út viðvörun vegna allra þeirra sem höfðu verið numdir á brott í Sýrlandi og taldi teymið að Alþjóðaglæpadómstóllinn í Haag (International Criminal Court) ætti að láta málið til sín taka.

„Sýrlandi mun ekki miða áfram ef ekki tekst að gera grein fyrir hryllingnum tengdum handtökum og hvarfi fólks með fullnægjandi hætti,“ segir Sarah Leah Whitson, sem fer með málefni Mið-Austurlanda hjá Mannréttindavaktinni.

Með hverjum deginum sem líður án árangurs á þessu sviði munu fleiri hverfa, verða pyntaðir eða teknir af lífi, bætir hún við. Mannréttindavaktin telur nauðsynlegt að slík stofnun eigi að fá vítt valdsvið þannig að hún geti farið yfir öll opinber gögn og yfirheyrt alla þá sem eiga hlut að máli.

Þúsundir aðgerðasinna voru handteknar á fyrstu fimm árum stríðaátaka í Sýrlandi og margir þeirra eru enn í fangelsum, samkvæmt upplýsingum frá sjálfstæðum samtökum.

Amnesty International

Fyrr í mánuðum var andlát tölvunarfræðings og eins helsta baráttumanns málfrelsis í Sýrlandi, Bassel Khartabil Safadi, staðfest. Tveimur árum eftir að hann var tekinn af lífi af stjórnvöldum en hann var handtekinn í mars 2012 þegar stjórnvöld gengu sem harðast fram gegn andstæðingum sínum í landinu. 

Safadi, sem var af palestínskum ættum, barðist ötullega fyrir málfrelsi og netfrelsi og vakti heimsathygli fyrir baráttu sína. 

Eftir handtökuna 2012 fékk fjölskylda hans slitróttar fréttir af honum en í október 2015 hvarf hann af skrá Adra-fangelsisins í Damaskus og ekkert spurðist til hans eftir það. Eiginkona hans, Noura Ghazi Safadi, hélt áfram baráttunni fyrir því að fá hann lausan en undir lok síðasta mánaðar fékk hún staðfestingu á því að eiginmaður hennar hafi verið tekinn af lífi skömmu eftir að hún heyrði síðast frá honum – í október 2015.

Samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International hafa yfir 75 þúsund Sýrlendingar horfið frá árinu 2011. Á sama tíma og ástvinir þeirra leita eru tugir þúsunda óbreyttra borgara í haldi stjórnvalda. Margir þeirra hafa verið pyntaðir á hrottalegan hátt og um 15 þúsund þeirra eru látnir svo vitað sé. 

Vopnaðar sveitir stjórnarandstæðinga í Sýrlandi bera einnig ábyrgð á hvarfi hundruð almennra borgara á þeim svæðum sem þeir ráða og eru fangarnir pyntaðir og illa haldnir í fangabúðum þeirra. 

Fadwa Mahmoud, aðgerðasinni og einn stofnenda samtakanna „Families for Freedom“, segir að vonin reki hana áfram og geri henni kleift að láta dagana líða. Vonin um að eiginmaður hennar og sonur verði látnir lausir og snúi aftur heim. Hugsunin um stundina þegar hún frétti af lausn þeirra gefi henni kraft til þess að halda baráttunni áfram. Eiginmaður hennar og sonur, Abdulaziz Al-Kheir og Maher Tahan, hurfu 20. september 2012 þegar þeir voru handteknir af yfirvöldum í Damaskus. 

Milljónir Sýrlendinga hafa flúið heimili sín undanfarin ár.
Milljónir Sýrlendinga hafa flúið heimili sín undanfarin ár. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert