Heppin að vera heil á húfi

Signý Bergsdóttir og sonurinn Steinar. Fjölskyldan varð að flýja heimili …
Signý Bergsdóttir og sonurinn Steinar. Fjölskyldan varð að flýja heimili sitt, en skemmdir eru á húsinu eftir skjálftann. Ljósmynd/Facebook

„Það er alveg ótrúlegt hvað fólk er hjálpsamt og það er eitthvað sem ég myndi segja að væri afar jákvætt. Fólk er skelkað og svoleiðis en það passar upp á sína og sína nágranna og þá sem eru á götunni. Að það sé í lagi með þann sem stendur hliðina á þér, sama hver það er. Það er mikill samhugur.“

Þetta segir Signý Bergsdóttir sem búsett er í Mexíkóborg þar sem öflugir jarðskjálftar hafa valdið mikilli eyðileggingu. Yfir 300 manns eru látnir í kjölfar skjálftans á þriðjudaginn sem mældist 7,1 að stærð.

Signý hefur búið í Mexí­kó­borg síðastliðin 13-14 ár ásamt eiginmanni sínum Saul Ros­as og eins árs göml­um syni þeirra Stein­ari. Fjölskyldan þurftir að yfirgefa heimili sitt í kjölfar stærsta skjálftans og halda nú til hjá frænda Sauls.

Jarðskjálftar hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu í Mexíkó.
Jarðskjálftar hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu í Mexíkó. AFP

Að sögn Signýja var skjálftinn í dag ekkert í líkingu við stóra skjálftann á þriðjudaginn en allir hafi verið mjög skelkaðir og hlaupið út þegar glumdi í viðvörunarkerfi borgarinnar. Signý og fjölskylda hennar sóttu eigur sínar og fluttu út úr íbúð sinni í gær en byggingin hefur verið úrskurðuð óíbúðahæf.

„Það á ekki eftir að standa af sér annan skjálfta líklega. Það eru búnir að vera svo margir skjálftar hérna þannig að við erum ekkert að fara þangað aftur,“ segir Signý. Aftur á móti séu þau að vissu leyti heppin samanborið við fjölda annarra íbúa borgarinnar.

Margir misstu allt sitt

„Það eru svo margir sem eru að flytja, bara í nágrenninu hjá okkur eru þetta hundruð bygginga sem að þarf að rýma,“ segir Signý. „Við erum í rauninni heppin, við erum heil á húfi.“

Þar að auki séu þau lánsöm að því leyti að þau bjuggu í leiguhúsnæði. „Það er ótrúlegur fjöldi sem er orðinn heimilislaus. Við erum það heppin að við vorum að leigja þannig við í rauninni bara riftum samningi og fórum en það er fólk sem er kannski búið að missa aleiguna hérna í skjálftanum,“ útskýrir hún.

Fjöldi fólks hefur misst allt sitt.
Fjöldi fólks hefur misst allt sitt. AFP

Ljóst er að langt, strangt og kostnaðarsamt uppbyggingarferli er fyrir höndum í Mexíkó og að sögn Signýjar ríkir talsverð óvissa um það hvort og þá hvernig stjórnvöld muni taka á vandanum sem blasir við.

„Það eru allir skólar og leikskólar lokaðir og það byrjar ekkert starfið aftur fyrr en þeir hafa fengið grænt ljós frá almannavörnum um að byggingin sé í lagi. Ég veit svo sem ekkert endilega hvort að það gerist í næstu viku eða seinna,” segir Signý.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert