„Tíminn er núna“

Framkvædastjóri ICAN Beatrice Fihn.
Framkvædastjóri ICAN Beatrice Fihn. AFP

Tíminn til þess að banna kjarnorkuvopn er núna,“ segir í yfirlýsingu frá ICAN, samtakanna Alþjóðleg barátta um afnám kjarnorkuvopna,  en samtökin eru handhafar friðarverðlauna Nóbels í ár. 

Samtökin, sem eru með höfuðstöðvar sínar í Genf, segja Nóbelsverðlaunin mikinn heiður og segja kjarnorkuvopnadrauginn enn vofa yfir heiminum. Vofa sem geti auðveldlega leitt heiminn út í óendurkræfan hrylling. 

Aðgerðarsinnar með grímur af andlitum Donald Trump og Kim Jong-un.
Aðgerðarsinnar með grímur af andlitum Donald Trump og Kim Jong-un. AFP

Federica Mogherini, sem er æðsti fulltrúi Evrópusambandsins í utanríkis- og öryggismálum og varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, fagnar ákvörðun Nóbelsnefndarinnar og segir að ESB deili sýn ICAN um að losa heiminn við kjarnorkuvopn. 

Líkt fram hefur komið þá undirrituðu 122 ríki samkomulag þar að lútandi en Ísland er ekki þar á meðal þar sem Ísland taldi nauðsynlegt að Bandaríkin myndu áfram hafa yfir kjarnorkuvopnum að ráða. 

ICAN hlaut verðlaunin fyrir áratuga langa baráttu fyrir banni á kjarnorkusprengjum á sama tíma og kjarnorkuvopnadeildan við Norður-Kóreu fer stigvaxandi og bandarísk stjórnvöld draga í efa samkomulagið við Íran um að ríkið hætti auðgun úrans. 

„Gott að sjá #NobelPrize2017 fari til @nuclearban,“ skrifar Moherini á Twitter og ítrekar stuðning ESB við kjarnorkuvopnalausan heim. Mogherini er ein þeirra sem voru nefnd til sögunnar sem mögulegur handhafi friðarverðlaunanna í ár fyrir aðild sína að samkomulaginu við Íran.

Tvö kjarnorkuríki eru aðilar að ESB: Bretland og Frakklands en ESB samþykkti í síðasta mánuði að herða refsiaðgerðir sínar gegn Norður-Kóreu. Um er að ræða alþjóðlegt samkomulag um að refsa ríkinu fyrir kjarnorkuvopnatilraunir þess að undanförnu. 

Yfir sjötíu ár eru liðin síðan Bandaríkjaher varpaði kjarnorkusprengjum á tvær japanskar borgir, Hiroshima og Nagasaki, og vildi Nóbelsnefndin varpa ljósi á þrotlausa baráttu ICAN gegn notkun slíkra vopna. 

Höfuðstöðvar ICAN
Höfuðstöðvar ICAN AFP

Í frétt AFP kemur fram að með ákvörðun sinni skýtur Nóbelsnefndin föstum skotum að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, sem hefur hótað að binda endi á samkomulagið við Íran en hann gagn­rýndi eld­flauga­áætl­un Íran harðlega í ræðu sinni á alls­herj­arþingi Sam­einuðu þjóðanna í síðasta mánuði. Ýjaði for­set­inn meðal ann­ars að því að Íran­ar væru vís­ir til að brjóta gegn samn­ingn­um og að til greina kæmi að rifta hon­um. Trump sak­ar Íran nú einnig um að vera í sam­starfi við stjórn­völd í Norður-Kór­eu. Trump hótaði jafnframt að gjöreyða Norður-Kóreu vegna kjarnorkutilrauna landsins.

ICAN hlýtur verðlaunin fyrir að beina athyglinni að því hversu skelfilegar afleiðingar notkun kjarnorkuvopna hefur á mannkynið og byltingarkenndar aðgerðir ICAN til að ná fram samkomulagi um að banna slík vopn, sagði Berit Reiss-Andersen, formaður Nóbelsnefndarinnar meðal annars þegar hún tilkynnti um valið í Ósló í morgun.

„Við búum í heimi þar sem hættan á því að kjarnorkuvopnum verði beitt er meiri en hún hefur verið í langan tíma,“ sagði hún ennfremur.

ICAN samtökin voru stofnuð í Vín árið 2007 áður en alþjóðleg ráðstefna um kjarnorkuvopn var haldin. Um er að ræða borgaralegan vettvang til að sýna fram á að sáttmáli um bann við kjarnorkuvopnum væri bæði mögulegur og brýnn.

Samtökin léku lykilhlutverk í undirritun samkomulags 122 ríkja á fundi Sameinuðu þjóðanna í júlí. Hins vegar er ljóst að samkomulagið er aðeins táknrænt því ekkert þeirra níu ríkja sem eru skilgreind sem kjarnorkuríki rituðu undir samkomulagið.

Yfir 300 einstaklingar og samtök voru tilnefnd til friðarverðlaunanna í ár. Má þar nefna flóttamannaaðstoð SÞ (UNHCR), Hvítu hjálmana í Sýrlandi og kven­sjúk­dóma­lækn­inn Den­is Mukwe­ge frá Kongó sem hef­ur eytt ald­ar­fjórðungi í umönn­un kvenna sem hef­ur verið misþyrmt kyn­ferðis­lega í stríðshrjáðu rík­inu.

Handhafi verðlaunanna hlýtur níu milljónir sænskra króna í verðlaun en verðlaunin eru afhent í Ósló 10. desember. Á dánardegi sænska kaupsýslumannsins Alfred Nobel. 

Í erfðaskrá sinni er hann ritaði undir 27. nóvember árið 1895 talar hann um verðlaun sem skulu veitt í fjórum greinum: bókmenntum, eðlisfræði, efnafræði og læknisfræði. Auk þess skulu veitt svokölluð friðarverðlaun. Í erfðaskránni tiltekur Nobel einnig að sænska akademían skuli úthluta verðlaununum í bókmenntum, eðlisfræði, efnafræði og læknisfræði en að sú norska sjái um að úthluta friðarverðlaununum. Nefnir hann enga ástæðu fyrir þessu, segir á Vísindavef Háskóla Íslands.

Vefur ICAN

Listi yfir kjarnorkuvopnaríki heims

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert