Fundu 9 lík í íbúð í Japan

Japanska lögreglan að störfum fyrir utan fjölbýlishúsið sem maðurinn bjó …
Japanska lögreglan að störfum fyrir utan fjölbýlishúsið sem maðurinn bjó í. Nágrannar hans fóru að finna skrýtna lykt berast frá íbúðinni eftir að hann flutti þar inn. AFP

Japanska lögreglan hefur handtekið mann eftir að hafa fundið líkamshluta níu einstaklinga í íbúð hans í borginni Zama, nærri Tókýó.

BBC segir lögregluna hafa fundið tvö afhöggvin höfuð í kæligeymslu fyrir utan íbúð mannsins, Takahiro Shiraishi, er leit stóð yfir að 23 ára gamalli konu sem tilkynnt hafði verið um að væri saknað.

Þá fundust einnig líkamshlutar sjö annarra einstaklinga í kæliboxum í íbúð Shiraishi, sem nú hefur verið hnepptur í varðhald vegna gruns um að losa sig við líkin.

Líkin voru af átta konum og einum karli og eru sögð hafa verið á mismunandi stigi rotnunar. Greindi  Shiraishi lögreglunni frá því að hann hefði myrt fólkið og falið lík þeirra, að því er NHK sjónvarpsstöðin hefur eftir heimildamanni innan lögreglunnar.

„Ég myrti þau og vann svo smávegis í líkunum til að dylja sönnunargögnin,“ segir NHK Shiraishi hafa sagt.

Nágrannar Shiraishi hafa greint frá því að þeir hafi farið að finna skrýtna lykt frá íbúðinni eftir að hann flutti inn í ágúst.

Lögregla komst að því að Shiraishi hafði verið í sambandi við  23 ára konuna sem leitað var að og sem saknað hafði verið frá 21. október, eftir að hún skrifaði á netinu að sig langaði að fremja sjálfsmorð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert