10 farast í hörðum skjálfta í Írak

Miðja skjálftans var suður af íraska bænum Halabja og á …
Miðja skjálftans var suður af íraska bænum Halabja og á 33,9 km dýpi. Kort/Google

Snarpur jarðskjálfti upp á 7,3 mældist á norðurhluta landamæra Íran og Íraks nú í kvöld, sem kostað hefur 30 manns lífið hið minnsta að því er BBC greinir frá. 

Segir íraska ríkisfréttastofan sex hafa farist í vesturhluta Íran og íraskir miðlar hafa greint frá láti fjögurra til viðbótar þar í landi.

Fjöldi fólks er þá sagður hafa slasast í skjálftanum og er talið líklegt að tala látinna eigi eftir að hækka.

Mikil skelfing greip um sig í Írak í kjölfar skjálftans og flúði fólk út á götur bæja. Þá eru moskur í höfuðborginni Bagdad og öðrum borgum og bæjum í landinu sagðar hafa flutt bænir í gegnum hátalarakerfi sín.

Samkvæmt írönsku sjónvarpsstöðinni IRINN hafa björgunarsveitir nú verið sendar á skjálftasvæðið sem er í vesturhluta landsins.

Fréttir hafa borist af skemmdum í að minnsta kosti átta þorpum,“ sagði Morteza Salim, yfirmaður Rauða hálfmánans, í viðtali við sjónvarpsstöðina. „Þá hafa önnur þorp orðið fyrir rafmagnsleysi og truflanir hafa orðið á símkerfinu.“

Miðja skjálftans var suður af íraska bænum Halabja og á 33,9 km dýpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka