Skurðlæknar vara við typpahvíttunar-æði

Skurðlæknar hafa varað við nýjasta æðinu þegar kemur að fegurðaraðgerðum …
Skurðlæknar hafa varað við nýjasta æðinu þegar kemur að fegurðaraðgerðum á kynfærum: Typpahvíttun. AFP

Skurðlæknar hafa varað við nýrri tegund aðgerðar, sem hefur einkum notið mikill vinsælda í Taílandi að undanförnu, sem felst í að láta „hvítta“ á sér typpið.

Lelux-sjúkra­húsið í Bangkok sér­hæf­ir sig í að lýsa húðlit í landi þar sem marg­ir eru mjög upp­tekn­ir af slíku. Fyr­ir hálfu ári hóf sjúkra­húsið að bjóða þjón­ustu til karl­manna sem vilja láta lýsa húðlit á kyn­fær­um sín­um. Nú sækja um 100 karlmenn mánaðarlega til sjúkrahússins í til að láta hvítta á sér typpið.

Frétt mbl.is: Typpahvíttun nýjasta æðið

Skurðlæknar víðs vegar í heiminum hafa lýst yfir áhyggjum þess efnis að aðgerðin sé ekkert nema „typpatískufyrirbæri“ með óljósum ávinningi en ótal áhættum.

Í aðgerðinni eru ýmist notaðir leysigeislar, sýra eða sterk efni, til að lýsa húðlit limsins og hefur ítalski skurðlæknirinn Massimiliano Brambilla, sem séræfir sig í aðgerðum á kynfærum, bent á að aðgerðin geti leitt til bruna, öramyndana og strekktrar húðar. Aðgerðin geti jafnvel leitt til þveröfugra áhrifa, það er dekkri húðar eða bletta á typpinu.

„Ég held að þetta ætti ekki að vera framkvæmt á sjúklingi sem ekki þarf á því að halda,“ segir Brambila í samtali við AFP-fréttastofuna.

Heilbrigðisyfirvöld í Taílandi hafa einnig varað við aðgerðinni, þar sem hún geti valdið óþægindum eða sýkingu. Þá geti hún einnig komið í veg fyrir kynferðislega ánægju og leitt til ófrjósemi.

Telur vinsældirnar tengjast klámvæðingu

Fegrunaraðgerðir af ýmsu tagi og aðgerðir sem miða að því að lýsa húðlit eru ekki nýj­ar af nál­inni og í Taílandi eru þær nokkuð al­geng­ar. Samkvæmt upplýsingum frá alþjóðlegum samtökum um fegrunaraðgerðir (ISAPS) er Taíland í 21. sæti þegar kemur að fjölda fegrunaraðgerða sem voru framkvæmdar árið 2016.

Í sömu gögnum má einnig finna upplýsingar um að fegrunaraðgerðum á kynfærum hefur fjölgað á alþjóðavísu. „Ég held að þetta tengist klámvæðingu samfélagsins,“ segir franski lýtalæknirinn Fabien Boucher.

Hann segir að fólk leiti til hans með óskir um breytingar á kynfærum sem eru ekki raunhæfar. „Hárleysi, mýkt og bleikur litur. En það er eðlilegt að kynfærin séu örlítið dekkri á litinn en restin af húðinni.“ Boucher er alfarið á móti hvíttunaraðgerðum á kynfærum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert