Þrjú í hættu eftir taugagasið

Feðginin og lögregluþjónn liggja á gjörgæsludeild eftir taugagasárásina.
Feðginin og lögregluþjónn liggja á gjörgæsludeild eftir taugagasárásina. AFP

Ástand lögreglumannsins sem var fyrstur á vettvang þar sem feðginin Sergei og Julia Skripal fundust meðvitundarlaus í Salisbury á sunnudag er alvarlegt og liggur hann á gjörgæsludeild líkt og feðginin.

Að sögn lögreglu var taugagas notað til þess að reyna að myrða Skripal feðginin en taugagas er mjög eitrað sem lætur taugakerfið hætta að virka og lamar viðkomandi. Yfirleitt kemst það inn í líkama fólks í gegnum munn eða nef en það getur einnig sogast inn í gegnum augu eða húð. Þekktustu tegundir taugagass eru sarín og XV. 

AFP

Lögreglan biður alla þá sem voru í verslunarmiðstöðinni í Salisbury og hafa ekki enn rætt við lögreglu að gefa sig fram hafi þeir einhverjar vísbendingar um hvað gerðist.

Sérfræðingar útiloka að viðvaningur hafi útbúið taugagasið sem notað var enda sé nánast útilokað að búa slíkt til án sérfræðiþekkingar. Sérstakan búnað þurfi til sem kannski er hægt að kaupa á netinu en þetta sé ekkert sem þú útbýrð í eldhúsinu heima hjá þér, segir sérfræðingur sem Guardian ræddi við.

Hamish de Bretton-Gordon, fyrrverandi yfirmaður eiturefnadeildar breska hersins, segir að til þess að útbúa sarín og VX þurfi að hafa aðgang að rannsóknarstofu. „Ekki einu sinni Ríki íslams gæti búið það til.“  

Richard Guthrie, annar efnavopnasérfræðingur sem Guardian ræddi við segir að hægt sé að útbúa slíkt taugagas í litlu mæli í vel útbúnum rannsóknarstofum. En algjörlega útilokað að slíkt sé hægt í venjulegu eldhúsi. Miklu skipti að sarín er lyktarlaust, litlaust og bragðlaust. Alveg sama hversu lítið magnið sé - ef það leki út þá er það banvænt. 

Að sögn yfirmanns hryðjuverkadeildar lögreglunnar, Mark Rowley, segir að vitað sé af hvaða tegund taugagasið sé sem notað var en ekki verði upplýst um það að svo stöddu. Hann segir að það sé niðurstaða rannsóknarinnar að árásin hafi beinst gegn feðginunum og ætlunin hafi verið að drepa þau.

Tveir aðrir lögreglumenn sem komu á vettvang þurftu aðhlynningu á sjúkrahúsi í stuttan tíma áður en þeir voru útskrifaðir, segir í frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert