Skringileg saga njósnarans Skripals

Sergei Skripal við réttarhöldin í Moskvu árið 2006. Hann var …
Sergei Skripal við réttarhöldin í Moskvu árið 2006. Hann var dæmdur fyrir landráð. AFP

Rússneski gagnnjósnarinn fyrrverandi Sergei Skripal, sem breska lögreglan greindi frá í kvöld að hefði orðið fyrir taugagasárás, hefur búið í Bretlandi frá árinu 2010. Það ár voru gerð umtöluð skipti á njósnurum milli Breta og Rússa. 

Skripal og dóttir hans Yulia fundust meðvitundarlaus á bekk við verslunarmiðstöð í smábænum Salisbury í suðurhluta Englands á sunnudag. Lögreglan greindi frá því í kvöld að taugagas hefði verið notað til að reyna að myrða Skripal og dóttur hans og ljóst mætti telja nú að árásin hafi beinst gegn þeim. Eftir að fyrstu fréttir af Skripal bárust voru breskir fjölmiðlar fljótir að rifja upp mál Alexander Litvinenko, njósnarans fyrrverandi sem lést eftir að hafa verið byrlað geislavirka efnið pólóníum árið 2006.

Það er þó ýmislegt sem greinir að mál Litvinenkos, sem flúði Rússland eftir að hafa verið ákærður þar í landi, og Skripals, sem játaði að vera njósnari breskra stjórnvalda, var fangelsaður en síðar náðaður í heimalandinu eftir að skiptisamningar höfðu náðst við bresk yfirvöld. 

Hús Sergei Skripal í Salisbury lætur ekki mikið yfir sér.
Hús Sergei Skripal í Salisbury lætur ekki mikið yfir sér. AFP

Boris Johnson, utanríkisráðherra Breta, sagði í þinginu í gær að ef í ljós kæmi að erlent ríki bæri ábyrgð á atvikinu yrði tekið af því af hörku. Rússnesk stjórnvöld segja að ásakanir um að þau standi að baki eitruninni séu settar fram í pólitískum tilgangi.

Skripal er 66 ára. Hann var yfirmaður í njósnadeild rússneska herins en hafði látið af því starfi er hann var handtekinn í nágrenni heimilis síns í Moskvu árið 2004. Hann hafði gengið til liðs við leyniþjónustu Bretlands á meðan hann sinnti störfum í rússneska hernum á tíunda áratug síðustu aldar. Starf hans fyrir Breta fólst í því að safna upplýsingum um rússneska njósnara að störfum í Evrópulöndum. Hann hélt þessu starfi áfram eftir að hann lét af störfum í hernum árið 1999. Á sínum tíma kom fram að hann hefði haldið áfram að safna upplýsingum en í gegnum fyrrverandi samstarfsmenn sína. Rússneska lögreglan sagði að hann hefði unnið mikið tjón á öryggi ríkisins með athöfnum sínum. 

Skripal fór að vinna hjá rússneska utanríkisráðuneytinu er hann hætti í hernum. Hann hóf svo sjálfstæðan atvinnurekstur. 

MI6, leyniþjónusta Bretlands, greiddi Skripal fyrir störf sín og lagði launin inn á bankareikning á Spáni. Rússnesk yfirvöld sögðu á sínum tíma að greiðslurnar hefðu numið um 100 þúsund dollurum eða um 10 milljónum króna. 

Er Skripal var handtekinn og ákærður átti hann yfir höfði sér um 20 ára fangelsisdóm vegna landráðs. Hann fékk hins vegar 13 ára dóm þar sem hann var samvinnuþýður. 

Í júlí árið 2010 náðaði Dimitrí Medvedev, þáverandi forseti, Skripal og þrjá aðra Rússa og gerði fangaskipti við Bandaríkin. Hinir þrír voru Alexander Zaporozjskí, Gennadí Vasilenko og Igor Sutyagin

Lögreglan stendur vörð við pítsustað í Salisbury.
Lögreglan stendur vörð við pítsustað í Salisbury. AFP

Zaporozjsky og Sutyagin voru eins og Skripal að afplána dóma vegna landráðs. Vasilenko var fyrrverandi útsendari leyniþjónustunnar KGB, og var í haldi vegna annars konar brota. Í þeirra stað slepptu bandarísk stjórnvöld tíu njósnunum úr haldi. Skiptin fóru fram á flugvelli í Vínarborg þann 9. júlí árið 2010.

Í hópi tímenninganna var Anna Chapman. Hún var áberandi í rússnesku samfélagi fyrst eftir endurkomu sína þangað en lítið hefur farið fyrir henni síðustu árin. 

Rússnesk stjórnvöld harðneita því að vita nokkuð um hvað kom fyrir Skripal.

 Igor Sutyagin sem fór ásamt Skripal til Bretlands eftir njósnaraskiptin á sínum tíma segir þá hafa deilt viskí-flösku í fluginu frá Rússlandi árið 2010 en að síðan þá hafi þeir ekki verið í sambandi. „Ef þetta var hefndaraðgerð gegn Skripal þá er ástæðan óljós,“ segir hann í samtali við rússneska útvarpsstöð. „Hann játaði brot sín, fékk náðun eftir að hafa afplánað hluta af dómi sínum. Ég sé enga ástæðu til hefnda gegn honum.“

Alexander Litvinenko á sjúkrahúsinu eftir að áhrif eitrunarinnar fóru að …
Alexander Litvinenko á sjúkrahúsinu eftir að áhrif eitrunarinnar fóru að koma í ljós. mbl.is

Sutyagin segir að ef brögð séu í tafli geti hver sem er verið ábyrgur fyrir því að eitra fyrir honum, m.a. norðurkóresk stjórnvöld. 

Alexander Lugovoi, sem var grunaður um að hafa standa að baki morðinu á Litvinenko, blæs á þá kenningu að eitrað hafi verið fyrir Skripal. Hann segir Breta með eitranir á heilanum og sagði rússnesk stjórnvöld engan áhuga hafa á Skripal sem hafi verið náðaður og notaður í skiptisamningi. 

Bærinn Salisbury í suðurhluta Englands er þekktur fyrir fegurð sína. Það er ekki á hverjum degi sem hann kemst í fréttirnar, hvað þá vegna þess óhugnaðar sem átti sér stað á sunnudag er feðginin fundust meðvitundarlaus fyrir utan Maltings-verslunarmiðstöðina. 

Kelvin Inglis, 56 ára prestur í bænum, segir harmleikinn hafa spillt lífinu í hinum friðsæla bæ. Viðskiptalífið hefur verið hálflamað í bænum frá því málið kom upp þar sem verslunarmiðstöðin er einn stór glæpavettvangur. Bæjarbúar höfðu nokkrum dögum áður fengið heldur kaldar kveðjur frá Rússum er ískalt loft með snjó og miklu frosti streymdi yfir Bretlandseyjar í síðustu viku.

Frá sjúkrahúsinu í Salisbury þar sem feðginin liggja milli heims …
Frá sjúkrahúsinu í Salisbury þar sem feðginin liggja milli heims og helju. AFP

„Þetta er enn eitt áfallið eftir að ég þurfti að loka í tíu daga vegna snjósins,“ segir blómasalinn Danny sem er með sölubás á aðaltorgi bæjarins. 

Nú hefur lögregluborði verið strengdur umhverfis staðinn þar sem feðginin fundust en þar hafa sölumenn einmitt hingað til sett upp bása sína. 

„Það hefur lifnað yfir bænum,“ segir hins vegar hinn 66 ára gamli Henry sem selur fisk í sínum bás. „Ég man ekki eftir svona mikilli spennu í kringum Salisbury. Fyrst snjórinn, svo þetta.“

Lögreglumenn eru á verði víðar en við verslunarmiðstöðina. Einn þeirra stendur vörð við lögregluborða sem afmarkar svæði fyrir utan krána The Mill. Annar eru fyrir utan pítsustaðinn Zizzi. 

Flestir hafa hingað til lagt komu sína til Salisbury til að skoða hina heimsþekktu miðaldadómkirkju. Byggingu hennar lauk árið 1258. Í bænum er einnig að finna eina elstu klukku heims sem enn gengur. Svo má ekki gleyma því að Salisbury er í um 13 kílómetra fjarlægð frá Stonehenge. 

Lögreglan stendur vörð fyrir utan krána The Mill í Salisbury. …
Lögreglan stendur vörð fyrir utan krána The Mill í Salisbury. Kráin, sem er sú vinsælasta í bænum, hefur verið innsigluð í tengslum við rannsókn málsins. AFP

Lífið gengur þó sinn vanagang hjá flestum bæjarbúum sem tóku opnun verslana eftir kuldakastið fagnandi. 

Skripal býr í Salisbury, í litlu húsi í úthverfinu. Þar standa nú einnig lögreglumenn vakt ásamt fréttamönnum, m.a. frá Rússlandi, sem bíða í eftirvæntingu fregna af gangi rannsóknarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert