Frelsissviptur í 26 ár rétt hjá æskuslóðum

AFP

Karlmaður komst nýverið í leitirnar í Alsír eftir að hafa verið saknað í 26 ár.

Omar bin Omran hvarf í Djelfa í Alsír árið 1990 þegar borgarastyrjöld geisaði og var þá á unglingsaldri. 200 þúsund manns týndu lífi í átökunum og 20 þúsund manns var rænt. Fjölskylda hans vissi ekki hver örlög hans höfðu orðið en óttast var að hann hefði verið drepinn. 

Á dögunum barst lögregluyfirvöldum dularfull ábending. Þar var því haldið fram að Omran væri haldið föngum í fjárhúsi einungis 200 metrum frá æskuslóðunum. 

Þegar lögreglan fór og kannaði málið kom í ljós að ábendingin reyndist rétt. Þar fannst Omran innan um sauðfé, og undir heysátu, en hann er nú 45 ára gamall. 

Íbúi á bænum, 61 árs gamall karlmaður, reyndi að taka til fótanna þegar lögregluna bar að garði en var handsamaður. Er hann nú grunaður um að hafa haldið Omran föngum allan þennan tíma eða í 26 ár. 

Omran er nú í sálgæslu hjá fagfólki sem reynir að rannsaka andlegt og líkamlegt ásigkomulag hans. 

Móðir hans fær ekki að vita hvað varð um drenginn því hún lést árið 2013. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert