Á annan tug kvenna saka töframanninn kunna David Copperfield um kynferðisbrot samkvæmt umfjöllun breska blaðsins Guardian í kvöld.
Ásakanirnar eru alvarlegar og ná yfir langt tímabil eða nokkra áratugi. Sem dæmi má nefna að þrjár konur segja Copperfield hafa byrlað þeim ólyfjan og nauðgað þeim.
Guardian birti umfjöllunina í bandarísku útgáfu blaðsins. Er umfjöllunin byggð á rannsóknum blaðsins. Alls er þar talað um sextán konur sem saka Copperfield um kynferðisglæpi eða ósæmilega hegðun.
Einhverjar þeirra segjast hafa verið undir 18 ára aldri þegar samskiptin við Copperfield áttu sér stað.
Lögmenn Copperfield segja hann neita ásökunum og höfðu eftir honum að hann hafi aldrei hagað sér ósæmilega gegn nokkrum manni og hvað þá einhverjum undir lögaldri.
Ekki er þetta í fyrsta skipti sem Copperfield er sakaður um kynferðisglæpi. Árið 2018 til að mynda sakaði Brittney Lewis hann um að hafa byrlað sér ólyfjan og beitt sig kynferðisofbeldi árið 1988. Þá neitaði hann einnig sök.
David Copperfield er 67 ára gamall og kemur frá New Jersey í Bandaríkjunum. Hann hóf ferilinn sem töframaður árið 1972 og er stundum sagður vera frægasti töframaður allra tíma ásamt Harry Houdini.