Rússar taldir undirbúa árásir gegn Vesturlöndum

Vladimír Pútín við innsetningarathöfn í síðustu viku þegar hann gekk …
Vladimír Pútín við innsetningarathöfn í síðustu viku þegar hann gekk formlega inn í nýtt kjörtímabil. AFP

Rússnesk stjórnvöld eru nú talin leggja á ráðin um árásir gegn Vesturlöndum.

Við þessu varar forstjóri bresku leyniþjónustunnar GCHQ, Anne Keast-Butler, sem var skipuð í embættið fyrir ári.

Notaði hún í dag fyrstu opinberu ræðu sína til að varpa ljósi á þá vaxandi ógn sem stafar af Kreml.

Sagði hún leyniþjónustuna hafa sífellt meiri áhyggjur af aukinni samvinnu rússneskra leyniþjónusta og sjálfstæðra hópa til að gera netárásir, auk gruns um eftirlitsaðgerðir og spellvirki í raunheimum.

Þá kvað hún yfirvöld í Moskvu leggja rækt við og fóstra hópa tölvuþrjóta, og að í sumum tilfellum virðist sem þau vinni að því að samræma árásir gegn Vesturlöndum í raunheimum, að því er fram kemur í umfjöllun dagblaðsins Telegraph.

Árásir í raunheimum væru stigmögnun

Breskur maður var í síðustu viku ákærður fyrir íkveikju í Lundúnum og hafa saksóknarar vænt hann um að starfa með Wagner-hópnum, rússnesku málaliðahreyfingunni alræmdu.

Á sama tíma greindu bresk yfirvöld frá því að Dmitrí Kórósév nokkur, rússneskur ríkisborgari, væri maðurinn á bak við LockBit – hóp tölvuþrjóta sem stolið hefur hundruðum milljóna punda af breskum fyrirtækjum.

Breski pósturinn varð eitt fórnarlamba hópsins á síðasta ári, eftir að rússneski hópurinn gerði honum ókleift að senda bréf og pakka út fyrir landsteinana.

En árásir í raunheimum á Vesturlönd fælu í sér töluverða stigmögnun af hálfu Kremlar.

Vladimír Pútín er talinn leggja á ráðin um árásir á …
Vladimír Pútín er talinn leggja á ráðin um árásir á Vesturlönd. AFP

Mesta ógnin stafar af Kína

Þrátt fyrir þessi varnaðarorð þá sagði Keast-Butler að Kína krefðist meiri vinnu en nokkurt annað verkefni innan veggja GCHQ.

Þaðan steðji mesta ógnin að Bretlandi og í henni felist „raunveruleg og vaxandi tölvuhætta“ fyrir Bretland.

Tók hún fram að þó að Bretland væri reiðubúið að vinna saman með Kína í málaflokkum sem gagnast báðum ríkjum, á borð við loftslagsbreytingar og gervigreindaröryggi, þá stafi töluverð hætta af Kína fyrir alþjóðleg viðmið og gildi.

Kína leitist við að laga tæknistaðla heimsins að sínum þörfum, til að leggja lóð á eigin skálar, og vilji láta í ljós yfirburði sína á næstu tíu til fimmtán árum. 

Nokkrir dagar eru liðnir síðan greint var frá því að verktaki á vegum breska varnarmálaráðuneytisins hefði orðið fyrir barðinu á tölvuárás sem rakin er til Peking. Náðust þar gögn um launaseðla 270 þúsund starfsmanna hersins, núverandi og fyrrverandi.

Xi Jinping, forseti Kína. Stjórnvöld þar eru sögð vilja láta …
Xi Jinping, forseti Kína. Stjórnvöld þar eru sögð vilja láta í ljós yfirburði sína á næstu tíu til fimmtán árum. AFP

Markmiðið að fara huldu höfði

Bandaríkin hafa einnig sakað Kína um að reyna að brjótast inn í mikilvæga innviði landsins, í gegnum hóp tölvuþrjóta sem nefndur hefur verið Volt Typhoon.

Bandarískir embættismenn telja hópinn hafa reynt að komast í gegnum varnir innviða á borð við vatns-, rafmagns- og samgöngukerfi.

Markmið hans sé að fara þar huldu höfði og láta svo til skarar skríða ef til átaka kemur.

Joe Biden Bandaríkjaforseti á leið upp í flugvél sína, undir …
Joe Biden Bandaríkjaforseti á leið upp í flugvél sína, undir kallmerkinu Air Force One. Bandaríkin hafa lýst áhyggjum af leynilegum aðgerðum Kína. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka