Ummæli Trumps móðgun við mannkynið

Gagnrýni heldur áfram að rigna yfir Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna …
Gagnrýni heldur áfram að rigna yfir Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna orða hans um Maríu. AFP

Gagnrýni heldur áfram að rigna yfir Donald Trump Bandaríkjaforseta eftir að hann lofaði viðbrögð bandarískra yfirvalda vegna fellibylsins Maríu sem fór yfir Púertó Ríkó í fyrra. Trump lét þessi orð falla er hann fundaði með fréttamönnum vegna komu fellibylsins Flórens sem nú stefnir á Karólínuríkin.

Demókrataþingmaðurinn Joaquin Castro sagði í samtali við CNN að það hefði verið „móðgun við mannkyn“ þegar Trump stærði sig af viðbragði stjórnvalda vegna Maríu, sem kostaði tæplega 3.000 manns lífið á Púertó Ríkó.

„Nokkrir í minni fjölskyldu á Púertó Ríkó fengu rafmagn fyrst fyrir nokkrum vikum,“ sagði demókrataþingmaðurinn Alexandria Ocasio-Cortez á Twitter. „Fólk er að þróa með sér öndunarfærasjúkdóma vegna skorts á almennilegum hreinsunaraðgerðum. Viðbrögð yfirvalda vegna Púertó Ríkó hafa verið hörmung.“

Þá sagði Andrew Como, ríkisstjóri New York, að ef Trump teldi aðgerðirnar hafa tekist svo vel, þá ætti hann að segja það við ættingja þeirra 2.975 einstaklinga sem létust af völdum Maríu.

Jose Andrés, spænskur kokkur sem sá um að fæða íbúa á eyjunni eftir að María fór þar yfir og lenti í deilum við alríkisyfirvöld vegna þess, segir ummæli forsetans vera „ótrúleg“.

„Tölur yfir látna eru ein stærsta yfirhylming í sögu Bandaríkjanna,“ hefur New York Times eftir Andrés. „Fólk verður að átta sig á að þessi mikla dánartíðni var til komin vegna mikilla misbresta í starfi alríkisstjórnvalda og Hvíta hússins,“ bætti hann við. Að viðurkenna ekki hversu margir létust vegna afleiðinganna, leiddi til þess að aðföng og full aðstoð barst ekki íbúum Púertó Ríkó.

Mikið hefði verið um mistök við dreifingu drykkjarvatns og matvæla.

Ricar­do Rossello, rík­is­stjóri Pú­er­tó Ríkó, sendi í gær frá sér yf­ir­lýs­ingu þar sem hann lýsti Maríu sem „verstu ham­förum í sam­tíma­sögu okk­ar. Innviðir okk­ar eyðilögðust, þúsund­ir létu lífið og marg­ir eiga enn erfitt“.

„Ef hann tel­ur dauða 3.000 manns vera ár­ang­ur, þá Guð hjálpi okk­ur öll­um,“ sagði borg­ar­stjóri höfuðborg­ar Pú­er­tó Ríkó á Twitter.

Yfirmenn FEMA, banda­rísku al­manna­varna­stofn­un­ar­inn­ar, viðurkenndu í skýrslu sem gefin var út í júlí að ekki hefði verið rétt brugðist við.  Lagerar hefðu verið tómir og fátt hæft starfsfólk getað sinnt verkefninu. Þá hefði verið komið með vitlausa gerð gervihnattasíma til eyjunnar og skort hefði vörubílstjóra til að flytja neyðargögn frá höfninni. Heilu dagarnir hefðu liðið án þess að vitað væri var að gerast annars staðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert