Viðbrögð við sigri Johnsons

Boris Johnson verður næsti leiðtogi breska Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson verður næsti leiðtogi breska Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands. AFP

Viðbrögð við sigri Boris Johnsons í leiðtogakjöri breska Íhaldsflokksins hafa verið að koma smám saman fram í kjölfar þess að tilkynnt var um sigurinn, en með sigrinum verður Johnson enn fremur næsti forsætisráðherra Bretlands.

Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands og mótherji Johnsons á lokaspretti leiðtogakjörsins, þakkar honum fyrir góða kosningabaráttu á Twitter-síðu sinni í dag og segir að hann verði góður forsætisráðherra.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur óskað Johnson til hamingju með sigurinn og lýst þeirri skoðun sinni að hann verði frábær forsætisráðherra. Trump hafði áður lýst yfir stuðningi við Johnson í kosningabaráttunni.

Nigel Farage, leiðtogi Brexit-flokksins, hefur að sama skapi óskað Johnson til hamingju með sigur hans í leiðtogakjörinu. Verkefnið fram undan sé að koma Bretlandi úr Evrópusambandinu í síðasta lagi 31. október. Spyr hann á Twitter hvort Johnson hafi kjarkinn til þess.

Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins vegna útgöngu Breta úr sambandinu, hefur líkt og fleiri óskað Johnson til hamingju og enn fremur lýst sambandið reiðubúið til þess að halda áfram samningaviðræðum við Bretland.

Þá hefur Stanley Johnson, faðir Johnsons, lýst ánægju sinni í fjölmiðlum með kosningasigur sonar síns. Segist hann vera stoltur faðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert