Tóku niður styttu af konunginum

Styttur af konunginum hafa lengi verið skotmark aðgerðasinna.
Styttur af konunginum hafa lengi verið skotmark aðgerðasinna. AFP

Yfirvöld í belgísku hafnarborginni Antwerpen tóku niður styttu af Leópold 2. Belgíukonungi í dag, nokkrum dögum eftir að styttan var að hluta máluð rauð og svört af mótmælendum kynþáttahaturs.

Styttur af konunginum hafa lengi verið skotmark aðgerðasinna vegna þess hvernig hann arðrændi og kúgaði íbúa nýlendna sinna í Mið-Afríku.

Talsmaður borgarstjórans í Antwerpen segir að styttan hafi verið alvarlega skemmd og að færa þurfi hana aftur til fyrra horfs í Middelheim-höggmyndasafninu.

En hann bætir við að líklega muni hún ekki snúa aftur á sinn stað. Framkvæmdir séu fyrirhugaðar á torginu árið 2023 og að líkast til muni hún verða hluti af safnkosti höggmyndasafnsins.

Styttan var tekin niður í dag.
Styttan var tekin niður í dag. AFP

Helvíti á jörð

Arðránið fólst einkum í skefjalausri gúmmívinnslu og útflutningi á fílabeini. Menn konungsins beittu bæði klækjum og hótunum til að brjóta innfædda undir sig. Allri þjóðfélagsgerðinni var í raun snúið á hvolf. Komið var á sérstöku „skattkerfi“ sem gerði íbúana í raun að þrælum.

Þeim var ætlað að uppfylla vissan „kvóta“ og var konum og börnum gjarnan haldið í gíslingu til að tryggja að auðæfin skiluðu sér. Refsingum var beitt uppfylltu innfæddir ekki skyldur sínar; fjöldamorð voru framin og aðstæðum íbúanna breytt í helvíti á jörð.

Auðinn nýtti konungurinn á margvíslegan veg. Hann og fjölskylda hans lifðu í vellystingum og stór hluti þeirra gríðarlegu upphæða, sem arðránið gaf af sér, var nýttur til fjárfestinga í Belgíu og víðar.

Konungurinn var ekki einungis gráðugur og slægur, hann var einnig nautnabelgur hinn mesti, hélt hjákonur og gat tvö börn með þeirri síðustu sem hann gekk raunar að eiga fáeinum dögum fyrir andlát sitt, árið 1909.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert