Þrælafrídagurinn gerður opinber í New York

Frá fjöldamótmælum í New York í dag, á þrælafrídeginum.
Frá fjöldamótmælum í New York í dag, á þrælafrídeginum. AFP

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, hefur tilkynnt að 19. júní verði héðan í frá opinber hátíðisdagur þar í borg. Dagurinn gengur undir nafninu Juneteenth, en þess er þá minnst að á þeim degi árið 1865 var síðustu þrælum í Bandaríkjunum gefið frelsi. BBC greinir frá.

Dagurinn er þegar frídagur í nokkrum ríkjum og vilja margir að dagurinn sé gerður að frídegi á landsvísu. Hefur sú krafa fengið byr undir báða vængi í mótmælum gegn kynþáttafordómum sem geisað hafa um öll Bandaríkin síðustu vikur.

De Blasio sagði á blaðamannafundi í gær að dagurinn yrði opinber hátíðisdagur frá og með næsta ári. „Við munum vinna með öllum verkalýðsfélögum að áætluninni um að gefa þessum degi það vægi og viðurkenningu sem hann á skilið,“ sagði Blasio.  Fyrr í vikunni hafði Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York-ríkis, skrifað undir tilskipun þess efnis að dagurinn yrði launaður frídagur ríkisstarfsmanna.

Af öðrum ríkjum er að segja að ríkisstjórar Virginíu og Pennsylvaníu hafa báðir heitið því að dagurinn verði frídagur. Texas varð árið 1980 fyrsta ríki Bandaríkjanna til að gera daginn að frídegi, en nú er hans minnst með einhverjum hætti í 46 af 50 ríkjum Bandaríkjanna.

Bárust boðin tveimur árum of seint

Þann 19. júní 1865 bárust þrælum í Galveston í Texas þau boð að þrælahald hefði verið aflagt í Bandaríkjunum tveimur árum fyrr. Ástæða þess að boðin tóku svo langan tíma að berast var ekki síst átök sem enn stóðu í ríkinu, jafnvel eftir að borgarastríðinu bandaríska var lokið.

„Íbúar Texas fá hér þau boð að í samræmi við tilskipun frá framkvæmdavaldi Bandaríkjanna eru allir þrælar fríir,“ sagði í yfirlýsingunni. „Í því felst algjört jafnrétti milli fyrrum þrælahaldara og þræla, og samband þeirra verður héðan í frá samband vinnuveitanda og ráðins starfsmanns.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert