Á Biden líka rætur að rekja til Indlands?

Á Biden indverska forfeður?
Á Biden indverska forfeður? AFP

Þótt Indverjar séu nú við það að springa úr stolti yfir ætterni nýs varaforsetaefnis Bandaríkjanna, Kamölu Harris, hefur komist á æði meðal ættfræðinga landsins eftir að Joe Biden forsetaefni ýjaði að því að hann ætti mögulega forfeður frá Indlandi síðan á nýlendutímum.

Biden sagðist í ræðu hafa fengið bréf frá indverskum manni, sem deildi ættarnafni með honum, eftir að hann varð öldungadeildarþingmaður árið 1972. Hinn indverski Biden taldi þá vera skylda þar sem sameiginlegir forfeður þeirra höfðu unnið fyrir breska Austur-Indíafélagið á 18. öld.

Indverjar hafa tekið fréttunum með mikilli gleði og hefur minnisvarði í borginni Chennai um breska skipstjórann Christopher Biden, sem uppi var á 19. öld, verið afar vinsæll sjálfustaður síðan forsetakosningarnar hófust. Þá segist önnur vesturindversk fjölskylda sem deilir ættarnafninu Biden með forsetaefninu vera „uppgefin“ á símhringinum frá ókunnugum eftir að kosningarnar komust í hámæli.

Þrátt fyrir þessar ætternisvangaveltur hefur engin fullnægjandi sönnun á þeim fundist enn, en ljóst er að indverskir ættfræðingar munu rannsaka tengsl Bidens við landið til hlítar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert