„Þessi litla stúlka var ég“

Kamala Harris er varaforsetaefni demókrata.
Kamala Harris er varaforsetaefni demókrata. AFP

Hver er Kamala Harris er spurning sem fjölmiðlar hafa velt upp frá því Joe Biden greindi frá því í gær að hún yrði varaforsetaefni demókrata í komandi forsetakosningum. Valið hefur vakið ánægju meðal margra, ekki síst kvenna og svartra, en það markar ákveðin tímamót í sögu bandaríska lýðveldisins. 

Varaforsetaefni Joe Biden, Kamala Harris, hefur þegar skráð sig á spjöld sögunnar með því að vera fyrsta svarta konan sem er tilnefnd sem varaforsetaefni stóru flokkanna í Bandaríkjunum. Ef Biden verður kjörinn forseti verður hún fyrsta konan til þess að gegna embætti varaforseta Bandaríkjanna. 

Á Vísindavef Háskóla Íslands kemur fram að formlegt vald embættis varaforseta innan bandarísku stjórnskipunarinnar er takmarkað. Varaforsetinn er forseti öldungadeildar bandaríska þingsins en án atkvæðisréttar nema þegar atkvæði standa jöfn en þá hefur hann úrslitaatkvæði. Sem forseti öldungadeildarinnar hefur hann umtalsvert dagskrárvald og getur þannig haft áhrif á starfsemi þingsins.

AFP

Kamala Harris, sem er 55 ára gömul, er fædd í Oakland í Kaliforníu 20. október 1964 og foreldrar hennar eru báðir innflytjendur. Móðir hennar, Shyamala Gopalan, er fædd í Indlandi og starfaði við kennslu og krabbameinsrannsóknir ásamt því að berjast fyrir mannréttindum. Hún lést árið 2009. Faðir Kamala Harris, Donald J. Harris, er fæddur á Jamaica og starfaði sem hagfræðiprófessor. Hann er prófessor emeritus hjá Standford háskóla. 

Eftir skilnað foreldra ólst Harris að mestu upp hjá móður sinni ásamt yngri systur, Maya Lakshmi Harris. Maya er lögfræðingur líkt og Kamala og starfar einnig sem stjórnmálaskýrandi hjá MSNBC. 

Kamala Harris segir í sjálfsævisögu sinni The Truths We Hold að móðir þeirra hafi verið meðvituð um að hún væri að ala upp tvær svartar dætur þrátt fyrir að vera trú indverskum uppruna sínum. Hún vissi að hennar nýja föðurland myndi alltaf líta á dætur hennar sem svartar stúlkur og var umhugað um að þær yrðu sjálfsöruggar, stoltar svartar konur í framtíðinni. 

Þær mæðgur bjuggu um fimm ára skeið í Kanada þar sem Gopalan Harris kenndi við McGill háskólann. Kamala og Maya voru því við nám í Montreal í fimm ár. Kamala Harris stundaði nám við Howard háskóla í  Washington en þar lauk hún tvöföldu BA-prófi – í  stjórnmálafræði og hagfræði. Hún lauk kandídatsnámi í lögfræði við Kaliforníu-háskóla í San Francisco árið 1989. 

Fyrsta svarta konan sem ríkissaksóknari í Kaliforníu

Að námi loknu starfaði hún á skrifstofu saksóknara í Alameda-sýslu og í kjölfarið varð hún héraðssaksóknari San Francisco, fyrst svartra kvenna, árið 2003. Sjö árum síðar skráði hún sig aftur á spjöld sögunnar með því að verða fyrsta svarta konan sem er kjörin ríkissaksóknari í fjölmennasta ríki Bandaríkjanna, Kaliforníu. Hún gegndi embættinu tvö kjörtímabil og var fljótlega farið að tala um hana sem eina af rísandi stjörnum Demókrataflokksins. Árið 2017 var hún kjörin öldungadeildarþingmaður fyrir Kaliforníu og þar hefur hún vakið mikla athygli sem fulltrúi í dómsmálanefnd þingsins. Ekki síst fyrir spurningar sem hún spurði Brett Kavanaugh þegar hann sóttist eftir embætti hæstaréttardómara en útnefn­ing og síðar staðfest­ing Kavan­augh í dóm­ara­embættið 2018 var um­deild vegna ásak­ana í hans garð um kyn­ferðis­áreitni. Hún hefur einnig verið gagnrýnin og harðorð í garð William Barr dómsmálaráðherra þegar hann hefur komið fyrir þingnefndina. 

Joe Biden og Kamala Harris.
Joe Biden og Kamala Harris. AFP

Þegar Harris tilkynnti í byrjun síðasta árs að hún hygðist gefa kost á sér í forvali Demókrataflokksins fyrir komandi forsetakosningar heyrðust háværar efasemdaraddir um ákvörðunina. Hún var sögð fámál um ýmis mikilvæg atriði og svörin væru óljós þegar kæmi að atriðum eins og heilbrigðismálum. Eins þótti hún of aðgangshörð af einhverjum í kappræðum og þótti oft minna meira á saksóknara að berjast af hörku í dómssal fremur en stjórnmálamann sem reyni að falla öllum í geð. Ekki síst varð Biden skotspónn hennar.

Fyrir ári síðan mættust Harris og Biden og umræðuefnið var rasismi. Harris var ómyrk í máli í garð Biden og afstöðu hans  til skólaaksturs en hann var andsnúinn slíkum akstri í öldungadeildinni á áttunda áratug síðustu aldar.

Ekki bera kala til einhvers

„Ég tel ekki að þú sért rasisti,“ sagði Harris við Biden. Hún sagði honum frá lítilli stúlku í Kaliforníu sem var ein þeirra sem stundaði nám í almenningsskóla og fór með skólabíl í skólann alla daga. „Þessi litla stúlka var ég.“ 

Þetta atvik var talið einn helsti farartálmi Harris við að verða varaforsetaefni Bidens en kosningateymi hans hefur ítrekað hafnað því og á mynd sem sýnir minnispunkta Biden á blaðamannafundi í júlí má sjá setninguna: Ekki bera kala til einhvers. 

Kamala Harris hefur verið á þingi frá árinu 2017.
Kamala Harris hefur verið á þingi frá árinu 2017. AFP

Nú ári síðar deilir hún aftur sviðinu með Biden en nú sem samherjar og bíður það hlutverk að sannfæra bandarísku þjóðina um að þau tvö séu betur til þess fallin að stýra Bandaríkjunum heldur en Donald Trump og Mike Pence.

Ef Biden verður kjörinn forseti verður hann elstur til þess að hljóta kjör sem forseti Bandaríkjanna en hann verður 78 ára gamall í nóvember. Biden hefur verið harðorður í garð Trumps en ekki þeirra sem kusu hann 2016 og verður spennandi að sjá hvort Harris sýni gamla takta þegar hún mætir Pence í kappræðum í október. 

„Kamala er lögga“

Þegar Harris ákvað að taka þátt í forvalinu í fyrra beindi það sjónum að ákvörðunum hennar í fyrra starfi sem ríkissaksóknari. Þrátt fyrir að hafa stutt hjónabönd samkynhneigðra og verið andsnúin dauðarefsingum var hún sökuð um að vera ekki nægjanlega framsækin og of höll undir stjórnsýsluna. „Kamala er lögga,“ varð viðtekinn frasi á þessum tíma en er eitthvað sem stjórnmálaskýrendur telja að geti unnið með henni nú þar sem demókratar þurfi að afla frekara fylgis meðal hófsamra kjósenda fyrir miðju. 

Kamala Harris sést hér taka þátt í mínútuþögn í minningu …
Kamala Harris sést hér taka þátt í mínútuþögn í minningu George Floyd. AFP

„Ég er bandarísk“

Harris hefur yfirleitt lýst sér á einfaldan hátt: „Ég er bandarísk“ án þess að vísa sérstaklega í uppruna sinn. Eftir að George Floyd var drepinn af lögreglu hefur hún verið framarlega í flokki þeirra sem berjast gegn kynþáttamisrétti og lögregluofbeldi í Bandaríkjunum. Hún hefur krafist þess að lögreglumennirnir sem drápu Breonna Taylor, 26 ára svarta konu í Kentucky, verði handteknir og þörf sé á að koma í veg fyrir og binda endi á kerfisbundinn rasisma í landinu.

Harris hætti við þátttöku í forvalinu fyrir árslok í fyrra og tók því ekki þátt í fyrsta forvali demókrata í Iowa í byrjun árs 2020. Í mars lýsti hún yfir stuðningi við Biden og hefur undanfarnar vikur þótt líklegust til þess að vera fyrir valinu sem varaforsetaefni flokksins. Þrátt fyrir að hafa aldrei fengið yfir 20% fylgi í skoðanakönnum er hún vinsæl meðal ólíkra hópa innan Demókrataflokksins sem og óflokksbundinna. 

Styður breytingar á réttarkerfinu

Þegar Harris er gagnrýnd fyrir að hafa ekki verið nægjanlega hörð í baráttunni gegn ofbeldi lögreglu, ekki síst í þeim málum þar sem lögreglumenn skutu almenna borgara, þegar hún var ríkissaksóknari segir Harris að hún hafi viljað koma á breytingum innanfrá. Að breyta kerfinu í stað þess að knýja fram breytingar með utanaðkomandi afskiptum. 

Harris er umhugað um að gera umbreytingar á réttarkerfinu á þann veg að hagsmunir svartra Bandaríkjamanna eru hafðir í heiðri á sama hátt og annarra. Að draga úr fangelsisvistunum, greiðslu tryggingafjár og binda endi á dauðarefsingar. Jafnframt hefur hún barist fyrir bættu aðgengi svartra að æðri menntun og draga úr skuldasöfnun námsmanna. Hún hefur lagt til að laun kennara verði hækkuð umtalsvert og að dregið verði úr launamismun kynjanna. Meðal annars með því að skylda stórfyrirtæki til þess að sýna fram á jafnlaunavottun. 

AFP

Hvað varðar löggjöf um þungunarrof segir Harris að þau ríki og svæði sem ætli sér að þrengja rétt kvenna til þungunarrofs verði að fá samþykki alríkisyfirvalda áður en þau breyta lögum. 

Hún var fyrsti flutningsmaður frumvarps demókrata á Bandaríkjaþingi í sumar þar sem reynt er að berjast gegn spillingu innan lögreglunnar, valdbeitingu og kynþáttafordómum, Justice in Policing Act, í kjöfar drápsins á George Floyd. Frumvarpið var samþykkt í fulltrúadeildinni en náði ekki fram að ganga í öldungadeildinni. 

Harris hefur barist fyrir því að breyta heilbrigðislöggjöfinni á þann veg að bæta heilbrigðisþjónustu almennings. Hugmyndir hennar á þessu sviði lúta að því að allir Bandaríkjamenn fái aðgang að heilbrigðisþjónustu en heilbrigðistryggingarfélögin muni áfram gegna mikilvægu hlutverki þar sem þeir sem hafa ráð á því geta keypt sér þjónustu einkafyrirtækja á heilbrigðissviði. 

Hjónin Douglas Emhoff og Kamala Harris eru bæði lögfræðingar að …
Hjónin Douglas Emhoff og Kamala Harris eru bæði lögfræðingar að mennt. Hann á tvö börn af fyrra hjónabandi. AFP

Hún vill herða byssulöggjöfina þannig að meiri kröfur séu gerðar til þeirra sem kaupa skotvopn. Eins að loka glufum í löggjöfinni sem veitir þeim sem hafa gerst sekir um heimilisofbeldi kost á að kaupa skotvopn undir ákveðnum kringumstæðum.

Í loftlagsmálum hefur Harris lagt fram frumvarp með Alexandria Ocasio-Cortez þar sem lagt er til að sett verði á laggirnar sérstök stofnun í loftlagsmálum. 

AFP

Hér hefur fátt eitt verið talið upp varðandi Kamala Harris en hún hefur sjálf aldrei viljað tala um öll glerþökin sem hún hefur brotið á leið sinni í gegnum lífið. Ef Biden hefur betur gagnvart Trump í nóvember þá verður Harris fyrst kvenna í sögu Bandaríkjanna til að gegna embætti varaforseta. Hún er sú þriðja að vera varaforsetaefni en Geraldine Ferraro var varaforsetaefni demókrata 1984 og Sarah Palin fyrir repúblikana 2008. Svarið fæst við því 3. nóvember.

CNN

New York Times 

BBC

Washington Post

Guardian

Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert