Kvikindisleg og dónaleg

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, var fljótur að bregðast við vali Joes Bidens, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins, á varaforsetaefni í gær. Lýsti hann Kamölu Harris sem kvikindislegri og hann myndi ekki gleyma því í bráð hvernig hún hefði spurt Brett Kavanaugh spjörunum úr áður en hann var samþykktur í embætti hæstaréttardómara árið 2018.

Trump ræddi ákvörðun Bidens á daglegum fundi með blaðamönnum en minntist ekkert á það hvers vegna hann hefði sjálfur stutt framboð hennar í embætti saksóknara fjárhagslega á sínum tíma. Harris er lýst sem vinstrisinnuðustu manneskju sem hefur verið í framboði sem varaforseti Bandaríkjanna af stuðningsfólki Trumps.

Meðal þess sem kosningaskrifstofa Trumps hefur sent frá sér eru myndskeið þar sem fyrirsagnir eins og „Joe Biden og Kamala Harris myndu eyðileggja Bandaríkin“ sáust. Í tölvupósti frá framboðinu mátti líka lesa: „Þreytti-Joe Biden og loddarinn Kamala Harris.“

Harris er sökuð um hafa farið offari í embætti saksóknara og í sömu andrá er talað um að þau Biden muni sýna vanrækslu þegar kemur að því að halda uppi lögum og reglu. „Hún er manneskja sem hefur ítrekað sagt ósatt,“ sagði Trump en samkvæmt skráningu Washington Post hefur Trump logið í yfir 20 þúsund skipti frá því hann tók við embætti forseta. 

 Trump segir að Harris styðji hækkun skatta, hún vilji félagsvæða heilbrigðisþjónustu og draga úr framlögum til hersins.

„Hún stóð sig mjög, mjög illa í forvalinu, þið vitið það,“ sagði Trump en Harris hætti þátttöku í forvaldi demókrata í desember, það er áður en fyrstu forvalskosningarnar fóru fram í Iowa og New Hampshire. Þá kom fram í máli hennar að hún hefði ekki fjármagn til þess að halda baráttunni áfram.

„Kvikindisleg“ kom ítrekað fram í lýsingu Trumps á Harris, líkt og þegar Hillary Clinton var mótframbjóðandi hans um embætti forseta Bandaríkjanna 2016. „Hún er mjög, mjög kvikindisleg. Hún var örugglega illkvittnari en Pocahontas við Joe Biden.“

Þar vísar forseti Bandaríkjanna í öld­unga­deild­arþingmanninn El­iza­beth War­ren en Trump hefur ítrekað kallað hana Poca­hontas. „Hún var mjög dónaleg við Joe Biden og það er erfitt að velja einhvern sem er svo dónalegur.“

Vísar Trump þar í kappræður þar sem Harris gagnrýndi Biden fyrir andstöðu hans við akstur skólabíla en þar bætti hún við: „Ég tel ekki að þú sért rasisti“ og allt frá þeim tíma hefur hann ítrekað sagt að hann beri engan kala til Harris fyrir þessi ummæli hennar.

Marsha Blackburn, öldungadeildarþingkona repúblikana fyrir Tennessee, sagði við fréttamenn í gær að með valinu á Harris hefðu vinstrimenn endanlega náð yfirhöndinni í Demókrataflokknum. Hún bendir fólki á að kynna sér stuðning hennar við sýn Bernies Sanders um heilbrigðiskerfið.

Umfjöllun New York Times

Umfjöllun Fox News

Umfjöllun CBS

Umfjöllun Guardian

Umfjöllun Washington Post

Umfjöllun CNN

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert