Vopnahlé heldur og aðstoð berst til Gaza

Barn í miðri eyðileggingu í Beit Hanun á norðanverðri Gaza-ströndinni.
Barn í miðri eyðileggingu í Beit Hanun á norðanverðri Gaza-ströndinni. AFP

Mannúðaraðstoð tók að berast inn á Gaza-ströndina aðeins klukkustundum eftir að vopnahlé á milli Ísraelsmanna og Palestínubúa tók gildi.

BBC greinir frá. 

Þúsundir Palestínumanna hafa snúið til síns heima þar sem mikil eyðilegging er. Talið er að uppbygging svæðisins eftir átök síðustu daga gæti tekið fleiri ár. 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur kallað eftir að greidd verði örugg leið til að koma slösuðum af Gaza-svæðinu.

Yfir 250 manns liggja í valnum eftir ellefu daga átök Palestínumanna og Ísraelsmanna, flestir Palestínumenn. Ísraelsmenn og Hamas hafa lýst yfir sigri við undirritun vopnahlés.  

Í Suður-Ísrael var vopnahléi fagnað en fólk hræðist að óhjákvæmilegt sé að átkök brjótist út að nýju með litlum fyrivara. 

Bílfarmar frá alls konar hjálparsamtökum, þar á meðal frá samtökum sem tengd eru Sameinuðu þjóðunum, hafa komið inn á Gaza með lyf, mat og eldsneyti eftir að Ísraelar leyfðu umferð um Kerem Shalom-veginn inn á Gaza.

Yfir hundrað þúsund manns, sem búa á svæði þar sem Hamas-samtökin ráða ríkjum, þurftu að yfirgefa heimili sín. Samkvæmt samantekt Sameinuðu þjóðanna voru yfir 800 þúsund manns ekki með aðgang að rennandi vatni meðan á átökunum stóð. 

Yfirvöld í Palestínu segja tugi milljóna dala þurfa í uppbyggingu þess sem fór undir sprengjur Ísraelsmanna. Þá eru ótalin áhrif Covid-19-faraldurins sem enn grasserar á Gaza. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert