Biden lofar aðgerðum vegna netárása frá Rússlandi

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimir Putin Rússlandsforseti ræddu um netárásir …
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Vladimir Putin Rússlandsforseti ræddu um netárásir frá rússneskri grundu á fundi í gær.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagt Vladimír Pútín Rússlandsforseta að Bandaríkin muni grípa til „allra nauðsynlegra aðgerða“ til að stöðva netárásir frá Rússlandi.

Biden og Pútín áttu klukkutímalangan símafund í gær. Aðspurður í kjölfar samtalsins hvort Rússland myndi sæta afleiðingum sagði Biden að svo yrði.

BBC greinir frá.

Netárásum hefur fjölgað gríðarlega undanfarið en ein árásanna, sem var gerð af rússneskumælandi tölvuglæpahópnum REvil í þessum mánuði, hafði áhrif á 1.500 fyrirtæki.

Samkvæmt bandarískum yfirvöldum koma margar verstu árásanna frá Rússlandi og netþrjótarnir starfa oftast með þegjandi, eða jafnvel opnu, samþykki rússneskra öryggissveita.

„Ég gerði honum það mjög ljóst að þegar lausnargjaldsárásir eru gerðar frá rússneskri grundu, jafnvel þó að yfirvöld standi ekki á bak við þær, og við veitum þeim upplýsingar um hver var að verki þá ætlumst við til þess að rússnesk yfirvöld grípi til aðgerða,“ sagði Biden í kjölfar símafundarins.

Spurður hvort Bandaríkin gætu ráðist á netþjónana sem netglæpamennirnir nota svaraði hann játandi.

Vilja vinna saman en segjast ekki hafa verið beðin um það 

Að sögn bandarískra yfirvalda hafa þau ítrekað haft samband við rússnesk yfirvöld til að ræða netárásirnar. Yfirvöld í Moskvu þvertaka hins vegar fyrir það og segja bandarísk yfirvöld ekki hafa haft samband við sig.

„Þrátt fyrir vilja frá Rússlandi til að vinna saman að því að kveða niður ólöglegt athæfi á sviði upplýsingamála höfum við ekki fengið neinar beiðnir um slíkt frá bandarískum yfirvöldum,“ segir í yfirlýsingu frá skrifstofu Pútíns.

Ónefndur háttsettur bandarískur embættismaður segir hins vegar að stjórn Bidens hafi lagt fram „margar sértækar beiðnir um aðgerðir“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert