Áhorfendur NRK æfir yfir veðurspá

Kristian Gislefoss boðar hreint hamfaraveður dag nokkurn í ágúst 2050. …
Kristian Gislefoss boðar hreint hamfaraveður dag nokkurn í ágúst 2050. Ekki eru allir á eitt sáttir um túlkun þeirra Hans Olav Hygen loftslagsrannsakanda og hefur kvörtunum rignt yfir útvarpsráð. Skjáskot/Fréttatími NRK

Heldur óvenjulegur veðurfréttatími fór í loftið frá norska ríkisútvarpinu NRK í upphafi vikunnar og hefur kvörtunum rignt yfir útvarpsráð frá öskureiðum áhorfendum. Brá veðurfræðingurinn Kristian Gislefoss þar á leik og flutti veðurspá fyrir dag nokkurn í ágúst 2050. Öllu gamni fylgir þó nokkur alvara, en spáin byggði á útreikningum loftslagsrannsakandans Hans Olav Hygen, starfsbróður Gislefoss við norsku veðurstofuna Meteorologisk institutt.

Hygen hefur legið yfir því hvernig veðrið gæti orðið í Noregi eftir 29 ár, um miðja 21. öldina, og þeir Gislefoss sett upp spá sem lýsir degi nokkrum undir lok öfgasumars í veðri.

„Ég get slegið því fram hér að raunhæfar líkur eru á öfgum í veðri um miðja þessa öld. Ekkert sem við búumst við að gerðist hvert sumar, en þó eitthvað sem gæti gerst,“ útskýrir Hygen, en veðurspá Gislefoss fyrir daginn ímyndaða hófst á allt annað en hefðbundnum nótum norsks veðurs, hitastig allt að 40 gráðum og fjöldi skógarelda í Suður-Noregi, aurskriður, flóð og lokaðir vegir í norðurhluta landsins.

Vitnar í skýrslu SÞ

„Mér finnst óhugnaður að skoða hvað ég gæti þurft að upplifa þegar ég verð sjötugur,“ segir Gislefoss veðurfræðingur, „ekki síst hvað hitastig upp undir 40 gráður áhrærir. Veðrið árið 2050 er það veður sem barnabörnin mín eiga að alast upp við,“ segir hann.

Hygen rannsakandi vitnar í nýja skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna, þar sem því er slegið fram að margar þeirra breytinga sem heimsbyggðin upplifi nú, árið 2021, svo sem bráðnun jökla, hækkun sjávarborðs og auknar öfgar í veðurfari, muni halda áfram um aldir miðað við þróunina nú.

„Það sem vakti hvað mesta athygli mína eftir útgáfu nýju skýrslunnar eru veðuröfgarnar. Nú kveðast skýrsluhöfundar hafa fundið óræk tengsl milli öfga í veðri og loftslagsbreytinga af mannavöldum,“ segir Hygen. „Í stuttu máli er það að gerast sem loftslagsrannsakendur hafa lengi boðað, við erum að breyta veðrinu til hins verra.“

Hann hefur lengi fengist við rannsóknir á áhrifum hlýnunar á veðurfar í Noregi og segist við vinnslu spárinnar fyrir 2050 hafa litið til nokkurra sérstaklega heitra sumra síðustu ár, svo sem sumarsins 2018 þegar aðeins munaði hársbreidd að hitametið fyrir Noreg, 35,6 gráður frá því í júní 1970, félli með brauki og bramli. Það gerðist þó ekki það sinnið.

Hræðsluáróður og falsfréttamennska

Jan Fuglestvedt er rannsóknarstjóri Cicero-loftslagsrannsóknarmiðstöðvarinnar í Noregi og einn af höfundum skýrslu loftslagsnefndar SÞ. „Þetta er nothæf spá og ágæt áminning um það sem búast má við á þessari öld,“ segir Fuglestvedt við NRK eftir að hafa horft á veðurfréttatíma framtíðarinnar og bætir því við að það sem spáin boðar sé í raun áframhald þeirrar þróunar sem þegar sé hafin. „Við búumst við meiru af þessu, einkum hvað hitabylgjur snertir,“ segir hann.

Ekki eru hins vegar allir á eitt sáttir hvað þessa framtíðarveðurspá varðar, eins og fyrr segir, og varð uppi fótur og fit á Facebook-síðu NRK þar sem veðurspánni var deilt. Sökuðu lesendur ríkisútvarpið þar um hræðsluáróður og falsfréttir og í gærkvöldi upplýsti útvarpsráð að því hefðu borist tíu formlegar kvartanir vegna veðurspárinnar. „Kvartanirnar snúast um að NRK ástundi lygar og falsfréttaflutning,“ segir Erik Skarrud, formaður útvarpsráðs, við Dagbladet.

Hans Cosson-Eide, loftslagsráðunautur NRK, vísar því á bug að útvarpið fari með hræðsluáróður og segir það alvanalegt að mál sem komi við kaunin á áhorfendum hafni á borði útvarpsráðs.

Gislefoss veðurfræðingur ber að lokum hönd fyrir höfuð sér í samtali við Dagbladet og segir slíkar framtíðarveðurspár vissulega óvenjulegar, en þó mikilvægt innlegg í umræðuna. „Auðvitað myndi þetta aldrei allt gerast sama daginn og við völdum dálítið öfgakennda spá. En möguleikinn er til staðar að svona verði þetta,“ segir Gislefoss.

NRK

Dagbladet

ABC Nyheter

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert