Sandrok til vandræða á Kanaríeyjum

Það barst mikill sandstormur frá Marokkó til Kanaríeyja í gær.
Það barst mikill sandstormur frá Marokkó til Kanaríeyja í gær. Ljósmynd/NASA

Mikill sandstormur barst frá Marokkó til Kanaríeyja í gær. Þetta kemur fram í færslu eldfjallafræði og náttúruvárhóps Háskóla Íslands á Facebook.

„Toppurinn á Tenerife stóð þó upp úr, og þannig var hægt að meta hæðina á efninu í allt að 900 m. hæð yfir sjávarmáli,“ segir í færslunni.

Með færslunni fylgir svokölluð MODIS mynd frá Alþjóðlegu geimstöðinni NASA og er hæðarlína merkt inn á hana.

Fólki ráðlagt að loka gluggum og bera grímur

Kristján Davíðsson, sem staddur er í fríi á Poris de Abona á Tenerífe, segir það þó helst til miklar ýkjur að kalla þetta storm enda sé vindhraðinn aðeins um 2-3 m/sek á svæðinu.

„Það er nú mun nær því að vera logn en stormur.“

Örsmátt rykið hafi þó verið ansi þétt í gær og skyggni lélegt, að sögn hans.

„Fólki er ráðlagt að loka gluggum og bera grímur útivið. Allir eiga nóg af þeim þessa dagana.“

Sandrykið á jarðaberjaplöntu í Mar Menor á Costa Blanca.
Sandrykið á jarðaberjaplöntu í Mar Menor á Costa Blanca. Ljósmynd/Aðsend

Lungnasjúklingar viðkvæmir fyrir sandrykinu

Annar Íslendingur, sem búsettur er í Mar Menor á Costa Blanca, segist mikið finna fyrir sandrykinu þar og að gólfið í húsinu hans sé þakið ryki.

„Verandir húsa í götunni minni eru vanalega skúruð daglega enda búum við líka við sjóinn,“ segir maðurinn í samtali við mbl.is, en hann vill ekki koma fram undir nafni.

Spurður segir hann sandstorma ekki óalgenga í þessum hluta heimsins en að þeir nái ekki nema nokkrum sinnum á ári yfir Kanaríeyjarnar.

„Ég er lungnasjúklingur svo þetta er oft erfitt fyrir mig en venst svosem eftir þessi sjö ár mín niðri á strönd. Allt hitt góða fær mann til að gleyma þessu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert