Hætta „undir eins“ ef Úkraína uppfyllir skilyrðin

Talsmaðurinn Dmitry Peskov.
Talsmaðurinn Dmitry Peskov. AFP

Rússar krefjast þess að Úkraínumenn leggi niður vopn, breyti stjórnarskrá sinni þannig að áhersla verði lögð á hlutleysi, viðurkenni Krímskaga sem rússneskt svæði og viðurkenni sjálfstæði svæða aðskilnaðarsinna, Donetsk og Lugansk.

Þetta sagði Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku ríkisstjórnarinnar, í samtali við Reuters.

Hann bætti við að Rússar hafi sagt Úkraínumönnum að þeir væru tilbúnir til að hætta hernaði sínum „undir eins“ ef Kænugarður uppfylli þessi skilyrði.

Þetta er afdráttarlausasta yfirlýsing Rússa til þessa varðandi skilyrðin sem þeir vilja að Úkraínumenn uppfylli til að stöðva það sem þeir kalla „sérstaka hernaðaraðgerð“ í Úkraínu, sem núna hefur staðið yfir í tólf daga.

Peskov sagði að Úkraínumenn viti af þessum skilyrðum. „Og þeim var sagt að þetta geti allt stöðvast undir eins.

Hvað kröfuna um hlutleysi varðar í stjórnarskránni sagði Peskov að þar væri átt við að Úkraínumenn hafni því að ganga til liðs við nokkurs konar bandalag. „Þetta er aðeins hægt með því að gera breytingar á stjórnarskránni,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert