Vill sjá rússneska herinn veikjast verulega

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, vonast til þess að rússneski herinn veikist verulega í stríðsrekstri sínum í Úkraínu, svo að hann verði ekki aftur fær um sömu voðaverk og hann hefur framið þar.

„Við viljum sjá rússneska herinn veikjast svo mikið að hann geti ekki gert samskonar hluti og hann hefur gert í innrás sinni í Úkraínu,“ sagði Austin við blaðamenn eftir fund hans og Volodimírs Selenskís, forseta Úkraínu. 

Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sat einnig á fundinum. 

Austin telur að Úkraína geti unnið stríðið þar í landi ef herinn er rétt búinn. 

„Við trúum því að [Úkraínumenn] geti sigrað, þau trúa því að [þau] geti sigrað ef þau eru rétt búin og hafa rétta stuðninginn.“

Bandarískir embættismenn snúa aftur

Mánuðum saman hefur Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, beðið önnur ríki um vopn. Ákall hans virðist hafa hlotið nokkra áheyrn en nokkur ríki Atlantshafsbandalagsins hafa samþykkt að senda fleiri vopn til landsins þrátt fyrir mótmæli Rússa.

Austin sagði að Bandarískir embættismenn muni í þessari viku hægt og rólega snúa aftur til Úkraínu og tilkynnti um enn frekari hernaðaraðstoð. Stuðning­ur­inn er met­inn á 700 millj­ón­ir doll­ara eða það sem nem­ur tæp­um 91 millj­arði ís­lenskra króna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert