Bandaríkin hika ekki við að grípa til aðgerða

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP/Saul Loeb

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði að Hútar myndu áfram sæta hefndaraðgerðum láti þeir ekki af árásum sínum á skip á Rauðahafi.

Ummælin lét hann falla í kjölfar sameiginlegrar árásar Bandaríkjamanna og Breta á átján skotmörk Húta. Er þetta fjórða árásin á Húta frá því að þeir hófu flugskeytaárásirnar í nóvember.

Lýstu yfir stuðningi

Mikill óstöðugleiki hefur ríkt á Rauðahafi vegna flugskeytaárása Húta, vopnaðs hóps uppreisnarmanna í Jemen, á birgðaflutn­inga- og her­skip þar.

Í sameiginlegri yfirlýsingu nokkurra ríkja segir að árásirnar hafi verið gerðar á átta svæði í Jemen sem tengjast m.a. neðanjarðarvopnageymslu Húta, loftvarnarkerfum þeirra, flugskeytageymslu og þyrlu.

Yfirlýsinguna undirrituðu Ástralía, Danmörk, Kanada, Holland, Nýja-Sjáland og Barein. Lýstu löndin jafnframt yfir stuðningi við árásina.

Mæta afleiðingum stöðvi þeir ekki árásir

„Bandaríkin munu ekki hika við að grípa til aðgerða, eins og þörf krefur, til að verja líf og frjálst flæði viðskipta um eina mikilvægustu hafleið heims,“ var haft eftir Austin í yfirlýsingu varnarmálaráðuneytisins.

„Við munum halda áfram að gera Hútum ljóst að þeir munu mæta afleiðingum stöðvi þeir ekki ólöglegar árásir sínar sem skaða efnahag Mið-Austurlanda, valda umhverfisspjöllum og trufla mannúðaraðstoð til Jemen og annarra landa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert