Flytja vörur gegnum Rússland

Rússnesk vöruflutningalest á ferð í Rostov-héraðinu. Óöldin á Rauðahafi þvingar …
Rússnesk vöruflutningalest á ferð í Rostov-héraðinu. Óöldin á Rauðahafi þvingar nú asíska vöruframleiðendur og -seljendur til að senda vörur sínar með lestum gegnum Rússland og greiða fyrir það gjöld sem renna í rússneskan ríkissjóð. Ljósmynd/Wikipedia.org/Вадим Анохин

Vargöldin á Rauðahafinu og ítrekaðar flugskeytaárásir Húta á birgðaflutninga- og herskip þar undanfarið hafa breytt vöruflutningaleiðum frá Asíu til Evrópu og vekja samtök danskra innflutningsfyrirtækja, Danske Speditører, nú athygli á flókinni stöðu sem upp sé komin – svo notuð séu orð talsmanns þeirra.

Þrátt fyrir vestrænt viðskiptabann gagnvart Rússum í kjölfar innrásar þeirra í Úkraínu benda samtökin nú á að danskir kaupendur innfluttra vara eigi á hættu að hluti sendingarkostnaðar þess, er þeir reiða fram, hafni í rússneska ríkiskassanum.

Þetta sé einfaldlega vegna þess að árásirnar á Rauðahafinu þvingi framleiðendur og söluaðila í Asíu til að senda vörur landleiðina með járnbrautarlestum í stað þess að hætta á árásir á skip á siglingu til og frá Súesskurðinum, helstu sjóflutningaleiðinni milli Asíu og Evrópu.

Neytendur eigi lokaorðið

Því hefur gamla silkileiðin, eins og hún var kölluð, gegnum Rússland komist í gagnið aftur, það staðfestir fjöldi innflutningsfyrirtækja sem danska viðskiptablaðið Børsen hefur rætt við. Spurn eftir járnbrautarflutningum gegnum Rússland hefur að sögn þýska flutningafyrirtækisins Railgate Europe aukist um 25 til 35 prósent upp á síðkastið.

„Þetta er mjög flókin staða sem snýst um aðfangaöryggi, loftslagsmál og stríð. Þarna eru það kaupendur vöruflutninga og neytendur sem eiga lokaorðið,“ segir Martin Aabak, framkvæmdastjóri Danske Speditører, í samtali við danska ríkisútvarpið DR.

Bætir hann því við að notkun Rússlandsleiðarinnar hafi verið tekin að aukast umtalsvert áður en Rússar réðust inn í Úkraínu. Þar hafi hins vegar loftslagsmál fyrst og fremst verið orsökin. Eftir innrásina hafi dregið mjög úr þeirri eftirspurn en hún hafi hins vegar tekið við sér á nýjan leik eftir að Hútar tóku að skjóta að skipum á Rauðahafi til varnar hagsmunum Hamas-hryðjuverkasamtakanna. Reyna þau að hindra alla vöruflutninga til Ísraels samkvæmt yfirlýstri stefnu.

Flutningatruflanir gríðarlegar

Vöruflutningar gegnum Rússland falla nefnilega ekki undir viðskiptabannið vegna stríðsins, ekki nema um ákveðna vöruflokka sé að ræða, svo sem vopnabúnað. Aabak bendir á að hætt sé við því að greiðslur til rússneska ríkisins vegna flutninga gegnum landið renni til fjármögnunar hernaðarins gegn Úkraínu.

„Ég reikna með að rússnesku ríkisjárnbrautirnar fái greitt í hvert sinn sem samgöngukerfi þeirra er notað með einhverjum hætti, en ég veit ekki hve háar þær upphæðir eru,“ segir Aabak sem treystir sér ekki til að benda á sérstakar lausnir. Hér verði neytendur og sendendur vara að velja hvað vegi þyngst, aðfangaöryggið, loftslagið eða stríðið.

„Flutningatruflanirnar eru gríðarlegar. Það neyðir fyrirtækin til að finna valkosti við flutningaleiðirnar [...]. Þetta er fullkomlega löglegt fyrir þá sem kjósa að halda í þessar flutningaleiðir. Ég hef fullan skilning á að þessi leið verði fyrir valinu séu aðrar ekki í boði,“ segir Aabak að lokum.

DR

Børsen

Ni.dk

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert