„Byssa sem er miðað að höfði Bandaríkjamanna“

Þingmenn öldungadeildarinnar meta nú hvort að þeir muni taka upp …
Þingmenn öldungadeildarinnar meta nú hvort að þeir muni taka upp frumvarp sem myndi þvinga fram sölu TikTok. AFP/Olivier Douliery

Háttsettir embættismenn frá bandarísku alríkislögreglunni (FBI), dómsmálaráðuneytinu og skrifstofu leyniþjónustustjóra héldu í gær lokaðan trúnaðarfund fyrir öldungadeildarþingmenn í leyniþjónustu- og viðskiptanefnd öldungadeildarinnar.

Í síðustu viku samþykkti fulltrúadeild Bandaríkjaþings frumvarp sem myndi þvinga móðurfyrirtækið Bytedance til að selja dótturfyrirtækið TikTok, ella yrði TikTok bannað í Bandaríkjunum.

Frumvarpið er nú til skoðunar hjá fyrrnefndum þingnefndum öldungadeildarinnar.

ABC News greinir frá. 

Vopnavæða upplýsingar og gögn

„TikTok er byssa sem er miðað að höfði Bandaríkjamanna,“ varaði Richard Blumenthal, öldungadeildarþingmaður Demókrata, við í kjölfar trúnaðarfundar í þinghúsinu.

„Kínversku kommúnistarnir eru að vopnvæða upplýsingar og gögn sem þeir eru stöðugt að safna frá 170 milljónum Bandaríkjamanna,“ sagði hann og útskýrði að upplýsingarnar væru svo hugsanlega notaðar til að hafa áhrif á umræðu um lýðræðisleg mál í Bandaríkjunum.

Richard Blumenthal, öldungadeildarþingmaður Demókrata frá Connecticut.
Richard Blumenthal, öldungadeildarþingmaður Demókrata frá Connecticut. AFP/Yuriv Dyachyshyn

Segir TikTok ota efni um sjálfsskaða að börnum

Öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz, fremsti Repúblikaninn í viðskiptanefndinni, sagði í kjölfar trúnaðarfundarins að það væri mikið áhyggjuefni hvernig TikTok beitir algrími (e. Algorithm) forritsins gegn notendum í Bandaríkjunum.

„Efnið á TikTok í Kína ýtir undir hluti eins og stærðfræði, vísindi, menntun, starfsþrek og aga. Og hér í Bandaríkjunum er kínverski kommúnistaflokkurinn að ýta undir efni til krakkanna okkar eins og sjálfsskaða og sjálfsvíg,“ sagði Cruz.

Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður Repúblikana frá Texas.
Ted Cruz, öldungadeildarþingmaður Repúblikana frá Texas. AFP/Getty Images/Nathan Howard

TikTok hafnar alfarið ásökunum

Þótt vísbendingar hafi verið uppi um að frumvarpið myndi eiga erfitt uppdráttar í öldungadeildinni þá virðast fleiri þingmenn nú vilja þvinga fram sölu TikTok. Margir þingmenn ítreka að ekki er verið að banna TikTok, heldur frekar að tryggja að fyrirtækið sé í eigu einstaklinga sem eru ekki með tengsl við kínverska kommúnistaflokkinn.

Ekki liggur fyrir hvenær frumvarp yrði sett á dagskrá öldungadeildarinnar en líklega verður það ekki alveg á næstunni þar sem tveggja vikna þinghlé hefst undir lok vikunnar.

TikTok hafnar alfarið ásökunum um að fyrirtækið hafi deilt með kínverskum stjórnvöldum gögnum um notendur. Kínversk stjórnvöld fordæmdu í síðustu viku samþykkt frumvarpsins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. 

„Ef hægt er að taka geðþótta­ákvörðun um að nota svo­kallaðar þjóðarör­ygg­is­ástæður til að bæla niður framúrsk­ar­andi fyr­ir­tæki frá öðrum lönd­um er hvorki sann­girni né rétt­læti fyr­ir hendi,“ sagði Wang Wen­bin, talsmaður ut­an­rík­is­ráðuneyt­is Kína, á blaðamanna­fundi fyrir viku. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert