Mælt með aðildarviðræðum við Makedóníu

Reuters

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mælti með því í dag að hefja aðildarviðræður við Makedóníu að sambandinu. Tæp fjögur ár eru liðin frá því landið óskaði eftir viðræðunum. Olli Rehn, sem fer með stækkunarmál ESB, greindi frá þessu en hann kynnti ársskýrslu sína í dag. Ísland er ekki meðal þeirra ríkja sem eru á lista Rehn.

Grikkir hafa staðið í veginum fyrir aðildarviðræðum við Makedóníu en ríkin hafa átt í nafnadeilum. Telja Grikkir að nafnið Makedónía sé þegar frátekið þar sem hérað í Grikklandi ber þetta sama nafn. Meðal annars komu Grikkir í veg fyrir að Makedónía fengi aðild að Atlantshafsbandalaginu á síðasta ári vegna þessa.

Í skýrslunni fer Rehn yfir stöðu umsókna ríkja sem hafa sótt um aðild að ESB. Þar á meðal Króatíu, Tyrklands, Albaníu, Svartfjallaland, Bosníu, Serbíu og Kósóvó. Hins vegar er Ísland ekki nefnt á nafn í skýrslunni en stutt er síðan Ísland sendi inn formlega umsókn um aðild að ESB.

Rehn sagði á fundi með blaðamönnum í dag að allar líkur væru á að Grikkir og Makedónía myndu ná saman í nafnadeilunni og Makedónía væri þegar búin að ljúka nánast allri undirbúningsvinnu fyrir aðildarviðræðurnar. Meðal annars hvað varðar setningu laga í takt við reglur ESB.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent — Fleiri fréttir

Í dag

Í gær

Laugardaginn 18. maí