40 metra rifa á síðu Guðrúnar KE-15

Guðrún Gísladóttir KE sekkur í Nappastraumen við Norður-Noreg 19. júní …
Guðrún Gísladóttir KE sekkur í Nappastraumen við Norður-Noreg 19. júní 2002. mbl.is

Norska strandgæslan kveðst bera fullt traust til björgunarfélagsins Seløy undervannsservice og þeirra starfa sem félagið hefur unnið við tilraunir til að ná fjölveiðiskipinu Guðrúnu Gísladóttur KE-15 af hafsbotni við Lófót.

Yfirmaður í strandgæslunni, Tor Christian Slettner, lætur svo ummælt í samtali við norska útvarpið (NRK) og segir að ekkert sé út á aðgerðir Seløy að setja. Í blaðinu Fiskaren í gær kemur fram hörð gagnrýni á Seløy og aðgerðir þess á strandstað sagðar hálfkák.

Trond Olsen, einn af eigendum og stjórnendum Seløy, segir að mikil óbilgirni felist í gagnrýninni. Nefnir hann einkum þingmanninn Søren Fredrik Voie sem heldur því fram að björgunaraðgerðir séu í höndum amatöra.

Olsen segir að tafir á aðgerðum séu fyrst og fremst af völdum veðurs. „Og af hvaða viti og þekkingu á veðuraðstæðum í Nappstraumen talar hann,“ spyr Olsen sig í viðtali við NRK.

40 metra löng rifa á síðu Guðrúnar

Eftir tæpan mánuð eru liðin tvö ár frá því Guðrún sökk. Nýlega kom í ljós að 40 metra löng rifa á annarri síðu skipsins. Meðal annars eru göt inn í fiskilestina, vélarrúmið og einn olíutank skipsins. Eru skemmdirnar meiri en nokkurn hafði órað fyrir og koma til með að hafa áhrif á tilraunir til að koma skipinu á flot.

Til þessa hefur björgun Guðrúnar kostað norska ríkið 11 milljónir norskra króna frá því verkið var tekið úr höndum íslenskra björgunaraðila. Þá er gert ráð fyrir 19 milljónum norskra króna til við bótar í fjárlagafrumvarpi norsku stjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka