Á fimmta tug með eitrunareinkenni

Eftir Steinunni Ásmundsdóttur og Elvu Björk Sverrisdóttur
Klórgas getur við innöndun valdið alvarlegum skaða á lungum og öndunarfærum. Við húðsnertingu getur fljótandi klór valdið alvarlegum ætingarsárum og kali. Slettur í augu geta valdið varanlegum sjónskemmdum.

Fólkið sem varð fyrir klórgufueitruninni á Eskifirði í gær fékk flest sára ertingu í öndunarveg, hósta og uppköst og auk þess fengu einhverjir ertingu í húð og augu. Þeir sem veikastir urðu fengu lungnabjúg sem fylgja andþrengsli og getur það ástand versnað nokkrum klukkustundum eftir að fyrstu einkenna verður vart og voru þeir fluttir til Reykjavíkur og Akureyrar til eftirlits. Læknar búast þó við að fólk jafni sig, þótt ekki sé unnt að skera úr um það fyrr en að nokkrum tíma liðnum.

"Þetta gekk ótrúlega vel," sagði Emil Sigurjónsson, rekstrarstjóri hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands á Eskifirði, í gær. Undir það tók Einar Rafn Haraldsson, framkvæmdastjóri stofnunarinnar, og sagði ástandið hafa virst svakalegt um stundarsakir. "Þetta hefur mest áhrif á slímhúðina og lungun og menn voru hér hóstandi og gubbandi um alla ganga vegna sviða í öndunarfærum," sagði Einar Rafn. "Við vorum komin með fullt af sjúkraflutningamönnum og læknum eins og hendi væri veifað og skipulagið mikið og gott. Fólki var gefið súrefni og steralyf og látið doka um stund meðan lyfin verkuðu," sagði Emil. 26 voru sendir áfram á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað, meirihluti þeirra var börn á aldrinum fimm til tólf ára.

Einar Rafn og Emil telja að sumir sundlaugargestanna hafi farið heim áður en uppnámið hófst og ekki áttað sig á því fyrr en nokkru síðar að þeir þyrftu að leita læknis. Því hafi verið að koma fólk fram eftir degi til skoðunar á heilsugæsluna. Fólkið sem kom til aðhlynningar var að þeirra sögn frá hálfs árs gömlu barni og upp að sjötugu en þó mest af börnum og unglingum.

Rúmlega fjörutíu manns höfðu leitað til heilsugæslunnar á Eskifirði um kl. 17 í gær og töldu þeir Einar Rafn og Emil að von gæti verið á fleirum.

Stefán Þórarinsson, yfirlæknir Heilbrigðisstofunar Austurlands, sagði í gærkvöldi að klórgas væri mjög ertandi efni líkt og sýra er. "Versnandi einkenni geta verið að koma fram tvo til þrjá sólarhringa eftir að eitrunar verður vart. Þeir sem eiga bágt með að anda fá súrefni og langflestir lyf í æð eða inntöku sem minnkar bólguviðbragð lungnanna og dregur úr eitrunareinkennum."

Ein af mörgum hetjum dagsins

"Upp úr hálftvö kom ein móðirin á bikiníinu með fimm börn og í sömu svifum hringdi neyðarlínan og maður frá sundlauginni," sagði Jóhanna Rafnsdóttir, ritari á heilsugæslunni á Eskifirði, en hún var á þönum í allan gærdag vegna klórgasmengunarinnar. "Svo komu fleiri og fleiri, jafnvel fólk sem hafði verið á leið í sund en ekki komist ofan í. Við brettum upp ermar hér. Við vorum tvær hér á staðnum og hin tók alveg símann því alltaf var verið að hringja og tilkynna. Við fórum í að redda lyfjum, hlúa að fólki, athuga með læknana o.s.frv. Við ræddum við fólkið, spurðum hvar það hefði verið og reyndum að róa það niður, vöfðum það inn í teppi því flestir voru nú á sundfötunum og reyndum að fá sem mest af upplýsingum. Fólkið var hlustað og fékk súrefni og steralyf. Á einhverjum tímapunkti voru lyfin uppurin í öllum apótekum í kring og læknatöskunum en fannst á endanum meira af því á heilsugæslunni á Egilsstöðum og Einar Rafn brunaði uppeftir til að ná í þau. Við reyndum að meta hverjir voru í skjótastri þörf fyrir aðhlynningu því hér mynduðust langar biðraðir."

Jóhanna á stúlku sem var á leið í sund í gær og var rétt komin í búningsklefann þegar ósköpin byrjuðu. "Auðvitað er okkur óskaplega brugðið og bærinn búinn að vera á hvolfi vegna þessa."

Læknar komu víða að til hjálpar í gær og m.a. bæði læknir og hjúkrunarfræðingur frá Bechtel, sem byggir álverið í Reyðarfirði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka