Íbúðalánasjóður mun áfram gegna þýðingarmiklu hlutverki

Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra
Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra

Íbúðalánasjóður hefur gegnt og mun, að áliti félagsmálaráðherra, Magnúsar Stefánssonar, áfram gegna þýðingarmiklu hlutverki við framkvæmd þeirrar stefnu íslenskra stjórnvalda að tryggja öllum landsmönnum, óháð búsetu og efnahag, öryggi og jafnræði í húsnæðismálum með því að gera fólki kleift að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Þetta kom fram í ræðu ráðherrans á ársfundi Alþýðusambands Íslands í dag.

„Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu undanfarið um stöðu og hlutverk Íbúðalánasjóðs. Ég hef á undanförnum vikum kallað til mín til samráðs fulltrúa ýmissa aðila í þjóðfélaginu, ekki síst fulltrúa neytenda, til þess að kalla eftir sjónarmiðum þeirra þegar húsnæðismál og aðgengi að húsnæðislánum fyrir almenning eru annars vegar. Þar hefur margt áhugavert komið fram. Að mínu mati er nauðsynlegt að við höldum áfram að ræða opinskátt um ýmsa þætti sem haft geta áhrif á húsnæðisverð og vaxtamyndun hér á landi með það að markmiði að tryggja svo hagstæð kjör sem kostur er á fyrir almenning í landinu. Það hlýtur að vera markmið okkar allra.

Ég hef hins vegar ákveðið að binda enda á þær vangaveltur sem verið hafa undanfarið um framtíð Íbúðalánasjóðs. Það er ljóst af minni hálfu að ekki verða gerðar aðrar breytingar á hlutverki Íbúðalánasjóðs á þessu kjörtímabili en hugsanlegar breytingar til að laga stöðu sjóðsins að ríkisstyrkjareglum EES-samningsins og breytingar til að fara eftir tillögum stýrihóps um málefni Íbúðarlánasjóðs, þar sem meðal annars er lagt til að Íbúðalánasjóði verði heimilað að fjármagna útlán sín með öðrum hætti en verið hefur og geti þannig lánað án ríkisábyrgðar."

Tryggja þarf að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda hér á landi

Magnús kom í ræðu sinni inn á málefni íslensks vinnumarkaðar og tilkomu útlendinga inn á þann markað.

„Eitt af meginviðfangsefnum þessa ársfundar Alþýðusambandsins er hnattvæðingin og íslenskur vinnumarkaður. Það er ljóst að áhrifin af alþjóðavæðingu efnahags- og atvinnulífs eru smám saman að koma í ljós með margvíslegum hætti. Fyrirtæki flytja starfsemi og framleiðslu til landa þar sem kaup og kjör eru mun lægri en í heimalandinu. Ákveðin hætta er á að dæmi verði um félagsleg undirboð og óöryggi starfsmanna.

Íslenskur vinnumarkaður er engin undantekning þegar þessi mál eru til umfjöllunar. Íslensk fyrirtæki hafa nýtt sér þá kosti sem alþjóðavæðingin þykir meðal annars fela í sér og eru að hasla sér völl á vinnumörkuðum annarra ríkja, jafnvel annarra heimshluta sem í mörgum, ef ekki flestum tilvikum, eru ekki jafn þróaðir og sá sem við eigum að venjast. Mikilvægt er því að þessi fyrirtæki einblíni ekki eingöngu á fjárhagslegan ávinning sinn heldur verði einnig góðar fyrirmyndir, fyrirtæki sem beri virðingu fyrir starfsmönnum sínum og umhverfi. Þannig tel ég að fyrirtækin geti hámarkað hagnað sinn þegar til lengri tíma er litið.

Enn fremur hefur fjöldi starfsmanna af erlendu ríkisfangi þrefaldast hér á landi á mjög skömmum tíma. Gott atvinnuástand og mikil eftirspurn eftir vinnuafli hefur skipt sköpum og verið drifkrafturinn í þessari þróun. Stjórnvöld hafa haft tæki til að stjórna framvindunni og hafa nýtt þau til dæmis með setningu laga um starfsmannaleigur. Forsenda atvinnu- og dvalarleyfa hefur verið skortur á vinnuafli og þar af leiðandi hafa útlendingar sem hingað koma verið frá fyrsta degi virkir þátttakendur á vinnumarkaðnum. Þetta hefur verið mjög þýðingarmikið og unnið gegn því að útlendingar væru hornrekur og utangarðs í íslensku samfélagi. Við höfum skorið okkur úr að þessu leyti.

Stækkun Evrópska efnahagssvæðisins frá maí 2004 hefur haft ákveðin áhrif á þessa þróun. Reynslan hefur sýnt ákveðinn hreyfanleika ríkisborgara nýju aðildarríkjanna en ríkisborgarar þessara ríkja hafa notið forgangs í laus störf hér á landi umfram ríkisborgara ríkja utan svæðisins. Þessi hreyfanleiki hefur orðið enn sýnilegri eftir 1. maí síðastliðinn er þessum ríkisborgurum var veittur réttur til að ráða sig til starfa hér á landi á sömu forsendum og Íslendingar.

Þessar breytingar sem hafa átt sér stað á tiltölulega skömmum tíma hafa skilað sér í miklum umræðum um aðstæður á vinnumarkaði. Ég vil undirstrika það hér að ég tel mjög mikilvægt að fjölgun erlendra fyrirtækja og útlendinga á innlendum vinnumarkaði raski ekki þeim reglum og samskiptahefðum sem hafa mótast hér í gegnum tíðina fyrir tilstuðlan aðila vinnumarkaðarins. Tryggja þarf að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda hér á landi sem og að stuðla að því að milliliðalaust ráðningarsamband milli vinnuveitanda og starfsmanna verði áfram meginreglan svo ég nefni dæmi," sagði félagsmálaráðherra.

Ræða Magnúsar Stefánssonar í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert