Vilja að Reykjavíkurborg verði áfram í forystu í málefnum innflytjenda

Borgarstjórnarflokkar Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs kynntu í dag framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Segja flokkarnir að markmið áætlunarinnar sé að Reykjavíkurborg verði áfram í forystu í málefnum innflytjenda og markvisst verði unnið að því að stuðla að aukinni þátttöku innflytjenda í samfélaginu með greiðara aðgengi að samfélaginu, m.a. með eflingu íslenskukennslu, stuðningi við skóla í einstaklingsmiðaðri nálgun og því að tryggja góða félagslega blöndun í öllum hlutum borgarinnar.

Flokkarnir segja, að samhliða aðgerðum sé mikilvægt að afla upplýsinga og þekkingar til að byggja undir aðgerðir sem stuðla að farsælu fjölmenningarsamfélagi. Til að meta árangur mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, og framkvæmdaáætlana sem á henni byggi, er lagt til að reglulega verði gerð úttekt á stöðu, líðan og þátttöku innflytjenda í Reykjavík.

Flokkarnir segja, að Reykjavíkurborg geti ein og sér þó ekki ein borið ábyrgð á málaflokknum, heldur verður ríkisvaldið að axla þá ábyrgð sem því ber. Því skora borgarstjórnarflokkar Samfylkingarinnar og VG á ríkisvaldið að mynda þegar í stað heildstæða stefnu í málefnum innflytjenda hvað varðar réttindi á vinnumarkaði, endurgjaldslausa íslenskukennslu, eflingu trúarbragðafræða í grunnskólum, aðgerðir gegn brottfalli ungmenna úr framhaldsskólum og úrræði fyrir konur af erlendum uppruna sem beittar eru ofbeldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert