Fréttir um að fólk búi í iðnaðarhúsnæði ræddar á Alþingi

Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, ræddi í upphafi þingfundar í dag um málefni fólks sem býr í iðnaðarhúsnæði og vísaði í fréttir sem verið hafa undanfarna daga á Stöð 2 um þau mál. Sagði Magnús að svo virtist sem fleiri hundruð manns virðast búa í iðnaðarhúsnæði, einkum á höfuðborgarsvæðinu, án þess að hafa þar skráð lögheimili.

Magnús sagði, að svo virtist sem leigumarkaður væri mjög spenntur og fólk reiðubúið til að taka á leigu lítil herbergi, allt að tíu fermetra stór og borga fyrir það okurverð eða búa í iðnaðarhúsnæði. Sagðist Magnús velta því fyrir sér hvað myndi gerast ef upp kæmi eldur í slíku húsnæði því stjórnvöld hefðu ekki hugmynd um það að þarna búi fólk.

Dagný Jónsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og formaður félagsmálanefndar Alþingis, sagðist telja þetta vera sérstakt upphlaup hjá Magnúsi, ekki síst í ljósi þess að félagsmálanefnd hefði sett málið í ákveðinn farveg á fundi sínum í gærmorgun en á vegum nefndarinnar væri verið að fjalla um breytingar á lögum um lögheimili. Verið væri að kanna hvort að hægt væri að breyta lögum í þá átt að einhver leið verði fundin til að fólk sem býr í atvinnuhúsnæði njóti réttinda.

Talsverð umræða varð um málið í morgun. Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, sagði að þverpólitísk samstaða væri að fylgja betur eftir lögum um þetta mál og vonandi næðist samstöðu um að breyta lögum og herða á eftirliti framkvæmdavaldsins með því.

Sagði Ögmundur að mörg dæmi væru um að öryrkjar og fátækt fólk búi við þessar aðstæður þjóðin ætti að sameinast um að útrýma þessu.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að sumt fólk byggi í skipum og sumt fólk byggi í iðnaðarhúsnæði. Allt þetta sýndi, að brotalöm væri í kerfinu og mikilvægt að reglum um skráningu í þjóðskrá sé breytt þannig að hægt sé að skrá fólk í húsnæði þótt það sé ekki samþykkt.

Valdimar L. Friðriksson, þingmaður utan flokka, sagðist m.a. hafa upplýsingar um, að nokkrir tugir Pólverjar búi fyrir ofan stórt dekkjaverkstæði við Smiðjuveg í Kópavogi. Sagði hann að ekki þyrfti að fara mörgum orðum um hve gífurlegur eldsmatur væri á verkstæðinu og hætta væri á að hér yrði stórslys vegna slíkra aðstæðna.

Hjálmar Árnason, þingmaður Framsóknarflokks, gagnrýndi málflutning Magnúsar Þórs og sagði hann vera lýðskrum og popúlisma í ljósi þess að félagsmálanefnd væri að fjalla um málið. Magnús Þór mótmælti því harðlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert