Bónus ekki bótaskylt vegna slyss í verslun

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu, að fyrirtækið Bónus sé ekki bótaskylt vegna tjóns, sem fyrrum starfsmaður fyrirtækisins varð fyrir þegar hann datt á gólfi verslunar í Spönginni í Reykjavík árið 2000. Þegar maðurinn kom í verslunina klukkan 7 um morgun var gólfið hált en ræstingafólk var þá enn að störfum.

Fram kemur í dómnum, að maðurinn rann til, þar sem hann var á gangi á verslunargólfinu, og skall við það niður á annað hnéð. Við óhappið rifnaði brjósk í hnénu og blæddi inn á liðinn.

Maðurinn vildi fá viðurkenndan bótarétt og byggði á því að rekja mætti slysið til ófullnægjandi og hættulegrar vinnuaðstöðu þar sem gólfið hafi verið nýbónað og blautt í upphafi vinnudags.

Dómurinn segir hins vegar, að ekki hafi verið saknæmt að þrífa gólf verslunarinnar þó að starfsmenn væru að mæta til vinnu. Stefnandi hafi sjálfur upplýst, að gólfið hefði verið blautt og ekkert styðji, að það hafi verið blautt af bóni. Að mati dómsins var um óhappatilvik að ræða og maðurinn hafi sjálfur verið fullfær um að meta slysahættuna af því að ganga inn á blautt gólf. Þá sé einnig til þess að líta, að maðurinn hafi verið veill fyrir í hné en hann var nýkomin til vinnu eftir aðgerð á hnénu og hafði því sérstaka ástæðu til að sýna varfærni. Það hafi hann ekki gert og beri því sjálfur ábyrgð á því tjóni sem hann varð fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert