Nýr sæstrengur verði lagður fyrir árið 2008

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hyggst í dag kynna ríkisstjórninni tillögur starfshóps um öruggt varasamband fjarskipta við umheiminn. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins leggur hópurinn til, að lagður verði nýr sæstrengur frá Íslandi til Skotlands eða Írlands og að framkvæmdum ljúki haustið 2008. Kostnaður við slíkan streng gæti numið 3-4 milljörðum króna.

Net- og talsímasamband Íslands við umheiminn fer um tvo sæstrengi, Cantat 3 og Farice. Sá fyrrnefndi er 12 ára gamall og hefur samgönguráðherra sagt, að hann muni ekki duga til lengri tíma. Raunar er staðan sú, að langt er frá því að Cantat 3 geti tekið við allri þeirri umferð sem fer um Farice, komi til bilunar í þeim streng.

Talið er að það taki um tvö ár að leggja nýjan sæstreng.

Farice var á sínum tíma lagður í samvinnu íslenska ríkisins, Símans, sem þá var ríkisfyrirtæki, Og Vodafone og Færeyska símans. Svo virðist sem ekki muni nást slík samstaða um nýja strenginn, þess þriðja, sem Íslendingar hefðu aðgang að, því samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hefur komið fram af hálfu Símans, að fyrirtækið hyggist ekki fjárfesta í nýja strengnum og Vodafone segir aðkomu sína háða "fjárhagslegum forsendum". Það þýðir trúlega, að fyrirtækið vilji að tryggt sé, að hagnaður verði af rekstrinum.

Í hnotskurn
» Sæstrengurinn Cantat 3 er 12 ára og flutningsgetan takmörkuð. Mun hún verða fullnýtt eftir fá ár.
» Farice-strengurinn var tekinn í notkun fyrir tæpum þremur árum.
» Dýrasti en kannski besti kosturinn er að leggja þriðja strenginn til Írlands um Færeyjar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert