Davíð Oddsson: Óskynsamlegt að auka þróunaraðstoð Íslendinga of hratt

Davíð Oddsson, Seðlabankastjóri.
Davíð Oddsson, Seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn

Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, segir í viðtali sem birtist í vikunni í tímaritinu Nordisk Tidskrift, að hann hafi í upphafi stutt þá hugmynd, að Ísland sæktist eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en horfið frá henni síðar meir. Þá segir hann í viðtalinu, að sér þyki mjög óskynsamlegt að auka þróunaraðstoð Íslendinga of hratt.

Davíð segir, að Geir Hallgrímsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi verið upphafsmaður þeirrar hugmyndar að Ísland sæktist eftir sæti í öryggisráðinu. „Hugsunin var sú að Ísland ætti með því að vera fullgildur meðlimur í Sameinuðu þjóðunum og taka að sér þetta verkefni þó það kostaði mikið og áhrifin væru kannski tiltölulega lítil - því það eru neitunarvaldsþjóðirnar sem ráða þarna öllu.”

Davíð segir að fjárhagslegur kostnaður hafi m.a. vaxið sér í augum en síðar hafi verið reynt að draga mjög mikið úr honum. Nú sé hann reyndar hræddur um að hann sé allt of lágur.

„Auk þess eru (íslenskir ráðamenn) að lofa því að tvöfalda þróunaraðstoð sem kostar milljarðatugi, í tengslum við þetta allt saman, sem mér finnst mjög óskynsamlegt að gera of hratt. Svona þróunaraðstoð gerir ekkert gagn nema hún aukist mjög hægt og rólega og skipulega. Hún hefur verið að aukast mjög mikið hjá okkur. Ekki vegna þess að prósentan hefur verið að hækka svo mikið. Heldur vegna þess að þetta er prósenta af þjóðarframleiðslu og þjóðarframleiðslan hefur hækkað hér meira en hjá nokkrum öðrum þjóðum. Við erum því að veita miklu meiri fjármunum í þróunaraðstoð en áður. Það eru fjármunirnir sem skipta máli en ekki einhver prósenta. Prósenta af litlu er gagnslaus, lág prósenta af miklu gerir mikið gagn. Þetta er skoðun mín, en ég er nú hættur að skipta mér af þessu,” segir Davíð í viðtalinu sem Arna Schram, blaðamaður, tók.

Davíð svarar í viðtalinu spurningum um stjórnmálaferil sinn, og segir m.a. um stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks á árunum 1991 til 1995, að á þessum tíma hafi verið nauðsynlegt að snúa af mjög vitlausri braut í efnahagsstjórnun. Þar hafi verið mikil handstýring í gegnum banka og fyrirtæki. Þessu hafi þurft að koma í burtu og Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafi eiginlega verið einu flokkarnir sem voru tilbúnir til að gera það á þessum tíma.

Davíð segist hins vegar ekki hafa lagt í að endurnýja samstarfið við Alþýðuflokkinn að kosningum loknum. „Þetta var að mörgu leyti skemmtilegur tími, en þessi ólga alltaf innan þessa litla flokks, og endalausar deilur og reyndar endalaus leki út úr ríkisstjórninni, sem hvarf eins og dögg fyrir sólu er þeir fóru út úr ríkisstjórninni.”

Davíð segir að sinn þingflokkur, þingflokkur sjálfstæðismanna, hafi á hinn bóginn verið nánast algjörlega samstæður. „Það voru engar fylkingar að takast á, eins og hafði gjarnan verið í Sjálfstæðisflokknum,” segir hann og bætir því við að fljótt hafi tekist að ná flokknum saman, eftir formannsslaginn árið 1991. „Það heyrðist aldrei talað um fylkingar meðan ég var þarna, það er aðeins farið að bera á því núna en ég vona að það verði nú ekki lengi.”

Þegar Davíð er spurður hvort eitthvað sé til í því, að tvær fylkingar séu nú að takast á innan Sjálfstæðisflokksins svarar hann: „Ég heyrði að ungur maður sem ætlar að verða framkvæmdastjóri flokksins, sagði að sitt fyrsta verk yrði að sameina flokkinn fyrir kosningar. Ég veit ekkert um hvað þessi ágæti maður er að tala.”

Davíð er spurður hvort hann myndi hvetja ungt fólk til þátttöku í stjórnmálum og svara að það sé auðvitað nauðsynlegt að gott fólk taki þátt í stjórnmálum. Það sé hins vegar ekki eftirsóknarvert.

„Þegar fólk segist ætla í prófkjör segist ég vona að það nái árangri og að ég virði þeirra hugrekki og vilja, en þar með hafi það tekið ákvörðun um tvennt: að vera fátækt fólk allt sitt líf og í öðru lagi að sitja undir dylgjum, rógburði og svívirðingum, ef það nær einhverjum pínulitlum árangri.”

Í viðtalinu lýsir Davíð einnig þeirri skoðun, að engin rök séu með aðild Íslands að Evrópusambandinu, bara rök á móti. Aðspurður hvort afstaða hans myndi breytast eitthvað færi Noregur í ESB, segir hann: „Fari þeir og veri eins og þeir vilja. Það breytir engu fyrir okkur. Þeir virðast reyndar ekkert vera á leiðinni þangað.”

Nordisk Tidskrift

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert