Almenningssalerni í miðborginni til skoðunar

Frá núllinu í Bankastræti
Frá núllinu í Bankastræti mbl.is/Kristinn

Fyrirkomulag almenningssalerna í miðborg Reykjavíkur er til skoðunar hjá Framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar í samvinnu við önnur starfssvið og hagsmunaaðila. Sérstaklega er verið að skoða aðstöðuna í „núllinu“, sem dregur nafn sitt af staðsetningunni í Bankastræti núll og var byggt árið 1930.

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að nýverið var skipaður starfshópur sem fékk það verkefni að skoða í fyrsta lagi framtíðarlausnir að nýju almenningssalerni eða salernum sem leyst gætu „núllið“ af hólmi, í öðru lagi að koma með hugmyndir að bráðabirgðalausnum og í þriðja lagi að finna nútímalegum salernisturnum stað í miðbænum.

Ein hugmynd að framtíðaraðstöðu er í tengslum við bílastæðahús sem verður undir nýju tónlistar- og ráðstefnuhúsi, en það teygir sig að Lækjartorgi. Staðsetning nýja ,,núllsins” væri þá ekki langt frá núverandi aðstöðu. Aðrir möguleikar eru einnig á borði starfshópsins en of snemmt er að greina frá þeim valkostum.

„Aðstaðan í núllinu er miðað við nútímakröfur að mörgu leyti óviðunandi. Kröfur um ferlimál fatlaðra er ekki unnt að uppfylla og næsta ómögulegt er að breyta eða byggja við húsnæði á þessum stað í þessum tilgangi. Ganga þarf niður brattar og þröngar tröppur og er aðgengi erfitt fyrir sjúkralið með börur ef til þess kæmi.

Einangrun og loftræsting er ófullnægjandi og veldur raki því að flísar hafa dottið af veggjum. Í september sl. var salernum norðan Bankastrætis lokað og er nú aðeins opið að sunnanverðu fyrir bæði kyn. Í úttekt sem unnin var að beiðni Framkvæmdasviðs sl. haust kom fram að öryggi starfsmanna er ábótavant og þó það heyri til undantekninga eru dæmi um að þeir hafi orðið fyrir aðkasti gesta. Leyst hefur verið úr brýnustu þörf með neyðarkallbúnaði," að því er segir á vef Reykjavíkurborgar.

Kostnaður við rekstur almenningssalerna í Bankastræti 0 og á Vesturgötu 7 er um 25 milljónir króna á ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert