Hraðakstur á Hallsvegi

Brot 107 ökumanna voru mynduð á Hallsvegi í Grafarvogi sl. mánudag. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið í vesturátt, þ.e. að Strandvegi. Á einni klukkustund, laust eftir hádegi, fóru 190 ökutæki þessa akstursleið og því ók meira en helmingur ökumanna of hratt eða yfir afskiptahraða.

Meðalhraði hinna brotlegu var tæpir 66 km/klst. Þarna er 50 km hámarkshraði en þeir sem hraðast óku voru mældir á 80 en þar var um tvö ökutæki að ræða. Liðlega tuttugu ökutæki mældust á yfir 70 km hraða.

Eftirlit lögreglunnar á Hallsvegi kom í kjölfar ábendinga frá íbúum í hverfinu sem kvörtuðu undan hraðakstri á þessum stað, segir lögregla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert