Borgarinn og pylsan hafa lækkað í verði

Löng röð á Bæjarins Beztu. Þar hefur pylsa og kók …
Löng röð á Bæjarins Beztu. Þar hefur pylsa og kók lækkað úr 380 kr. í 350 kr. mbl.is/Árni Sæberg

Tveir af eftirlætis skyndibitum Íslendinga, pylsur og hamborgarar, hafa lækkað í verði samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá tveimur af vinsælustu skyndibitastöðum landsins.

Fréttavefur Morgunblaðsins setti sig í samband við Bæjarins Beztu og hamborgarastaðinn American Style og komst að því að þar á bæ hafi menn lækkað verð hjá sér þann 1. mars sl. þegar virðisaukaskattslækkunin tók gildi.

Guðrún Kristmundsdóttir, eigandi Bæjarins Beztu, segir að pylsan hafi lækkað úr 230 kr. í 210 kr. Þá lækkaði gosið úr 150 kr. í 140 kr. Hún bendir á að þeir birgjar sem fyrirtækið versli við hafi nýlega hækkað hjá sér verð. Af þeim sökum hafi gosið til að mynda lækkað minna þar sem Bæjarins Beztu tóku ekki á sig hækkunina þegar Vífilfell hækkaði hjá sér verðið á gosi þann 20. janúar sl. Þá segir hún að verð á hráum lauk hafi hækkað um 34% eftir áramót og pylsan sjálf hækkað um 3%. „Við tókum þetta bara á okkur. Okkur fannst ekki taka því að hækka í mánuð lækka síðan aftur,“ sagði Guðrún. Aðspurð segir hún viðskiptavinina almennt vera ánægða með lækkunina.

Bjarni Gunnarsson, framkvæmdastjóri American Style, segir að fyrir þann 1. mars þá hafi ostborgaratilboð kostað 1.095 kr. en það kostar nú 995 kr. Hann tekur fram að inni í því tilboði er ostborgari, franskar og gos - en frí áfylling á gosi fylgir auk þess með. Aðspurður segir Bjarni að fólk hafi verið duglegt að spyrja út í lækkunina. „Það var mikið spurt fyrir 1. mars og það var greinilegt að fólk var vel vakandi, sem er mjög gott. Fólk er taka almennt mjög vel í þessa lækkun,“ segir Bjarni og vonast til þess að verðlækkunin muni leiða til aukinna viðskipta. Það sama hefur verið uppi á teningnum hjá American Style líkt og hjá Bæjarins Beztu hvað varðar verð frá birgjum, en aðspurður segir Bjarni þá hafa hækkað nokkuð verðið á undanförnum mánuðum.

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, þekkir vel til pylsanna hjá Bæjarins …
Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, þekkir vel til pylsanna hjá Bæjarins Beztu. mbl.is/ÞÖK
Þýski knattspyrnumaðurinn Oliver Kahn kann vel að meta góðan ostborgara, …
Þýski knattspyrnumaðurinn Oliver Kahn kann vel að meta góðan ostborgara, en ostborgaratilboð hjá American Style hefur lækkað um 100 kr. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka