Dæmdir fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi

Tveir karlmenn hafa verið dæmdir í skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsmeiðingar af gáleysi en þeir réðust í galsa á skipsfélaga sinn um borð í báti í Fáskrúðsfjarðarhöfn og drógu hann niður stiga. Þetta gerðist árið 2004. Afleiðingarnar urðu þær að maðurinn, sem varð fyrir árásinni, þurfti að gangast undir aðgerð á þvagfærum. Voru mennirnir tveir dæmdir til að greiða honum 800 þúsund krónur í bætur.

Fram kemur í dómnum, að mennirnir tveir höfðu setið að drykkju um daginn og voru báðir mjög ölvaðir þegar þetta gerðist; sögðust lítið eða ekkert muna en neituðu ekki sök.

Sá sem fyrir árásinni varð sagðist hafa verið að vinna á dekki skipsins um daginn og var allsgáður. Sagði hann að skipsfélagar sínir tveir hefðu ráðist á sig þar sem hann var á leið upp stiga milli hæða í skipinu. Annar greip í buxnastreng hans en hinn um pung hans og drógu hann þannig niður stigann.

Við þetta hlaut maðurinn varanlega skerðingu á blöðruvöðvastarfsemi og varð að gangast undir aðgerð á þvagfærum þar sem þvaglegg var komið fyrir í blöðrunni til að hann gæti haft þvaglát. Fram kemur í dómnum, að bótakrafa hans var m.a. rökstudd með því, afleiðingar árásarinnar hafi valdið honum mjög miklum skaða og vanlíðan. Hann hafi orðið fyrir andlegu og líkamlegu áfalli við árásina og liðið mjög illa síðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert