„Græðgistilboð" í Vinnslustöðina veldur kvíða í Eyjum

Eftir Grétar Júníus Guðmundsson gretar@mbl.is
Arnar G. Hjaltalín, formaður Drífanda stéttarfélags í Vestmannaeyjum, segist hafa miklar áhyggjur af tilboði Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims, og Hjálmars Kristjánssonar í allt hlutafé Vinnslustöðvarinnar.

„Almenningur hér í Vestmannaeyjum fylgist kvíðafullur með, því það hefur sést sviðin jörð eftir yfirtökutilboð og sölur á útgerðarfélögum annars staðar á landinu," segir Arnar. „Það er því ástæða til að hafa áhyggjur af þessum málum. En ég hef hins vegar tröllatrú á þeim sem standa að Vinnslustöðinni og vil ég þá sérstaklega nefna, að öðrum ólöstuðum, Harald Gíslason."

Að sögn Arnars má ætla að um 20-25% af atvinnutekjum á hinum frjálsa vinnumarkaði í Vestmannaeyjum komi frá Vinnslustöðinni. Hann segir að fyrirtækið sé því gríðarlega mikilvægt fyrir atvinnulífið í bænum.

Frá því var greint í gær að Stilla ehf., félag í eigu þeirra Guðmundar og Hjálmars, hefði ákveðið að leggja fram svonefnt samkeppnistilboð í allt hlutafé Vinnslustöðvarinnar. Er tilboðið komið fram vegna yfirtökutilboðs Eyjamanna ehf., félags hluthafa í Vinnslustöðinni, og er 85% hærra en það. Félög tengd Stillu eiga samtals tæplega 26% hlutafjár í Vinnslustöðinni.

Lagt fram með það í huga að selja kvótann

Elías Björnsson, formaður sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum, segir að sjómenn hafi ekkert um tilboð þeirra Brimsmanna að segja. Fiskveiðistjórnarkerfið bjóði upp á þá stöðu sem komin sé upp.

„Tilboð þeirra Guðmundar og Hjálmars er ekkert annað en græðgistilboð. Það er lagt fram með það í huga að selja kvótann, því þeir myndu aldrei geta rekið fyrirtækið með því að kaupa hlutaféð fyrir það verð sem þeir hafa lagt fram," segir Elías.

Í hnotskurn
» Samkvæmt tilboði Stillu er Vinnslustöðin metin á um 13 milljarða króna.
» Tilboð Stillu er 8,50 krónur á hlut.
» Vinnslustöðin er áttunda stærsta útgerðarfélag landsins m.v. úthlutuð þorskígildi.
» Fyrirtækið hefur 3,96% af úthlutuðum þorskígildum, eða rúmlega þriðjung af kvóta Vestmannaeyja, og er verðmæti aflaheimilda metið um 20 milljarðar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert