Mikil skelfing greip um sig þegar rúta vó salt á klettabrún

Betur fór en á horfðist þegar ökumaður rútu, með rúmlega 40 manns innanborðs, missti stjórn á ökutækinu með þeim afleiðingum að rútan stóð fram af klettabrún á Öndverðarnesi á Snæfellsnesi og vó þar salt.

Mikill viðbúnaður var í tengslum við málið og var Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð ræst þegar tilkynning barst um kl. 15:18 í dag. Að sögn Slysavarnarfélagsins Landsbjargar greip mikil skelfing um sig á meðal farþega í rútunni, og hefur þeim nú verið boðin áfallahjálp.

Verktakar, sem unnu að vegaframkvæmdum á svæðinu komu fólkinu til bjargar, en þeir náðu að draga rútuna upp á veg. Í rútunni voru franskir ferðamenn.

Að sögn Landhelgisgæslunnar voru tvær þyrlur ræstar út, þ.e. Líf og Gná. Þegar þær eru að undirbúa sig til brottfarar er aðstoðin afturkölluð. Tilkynningin barst 15:18 sem fyrir segir og aðstoðin er afturkölluð 15:29.

Ekki hefur náðst í lögreglumenn á vettvangi eða björgunarsveitarmenn, en þeir eru utan farsíma- og NMT-samband. Allar björgunarsveitir á Snæfellsnesinu voru ræstar út enda ástandið tvísýnt í upphafi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert